Enski boltinn

Lykil­maður Bayern ekki hrifinn af Arsenal þrátt fyrir tapið í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joshua Kimmich í baráttu um boltann við Declan Rice í leiknum á Emirates-leikvanginum á miðvikudagskvöldið.
Joshua Kimmich í baráttu um boltann við Declan Rice í leiknum á Emirates-leikvanginum á miðvikudagskvöldið. Getty/ Rob Newell

Joshua Kimmich og félagar í Bayern þurftu að sætta sig við 3-1 tap á móti Arsenal í Meistaradeildinni í gær en þrátt fyrir það var þýski landsliðsmaðurinn ekki tilbúinn að hrósa toppliði ensku úrvalsdeildarinnar og toppliði Meistaradeildarinnar.

Kimmich var lítið hrifinn af leik Arsenal og hann hefur sagt að Paris Saint-Germain sé erfiðasta liðið sem Bayern München hefur mætt á þessu tímabili.

Kimmich hélt því fram að lið Mikel Arteta „treysti á föst leikatriði“ og „elskaði að spila langa bolta.“

Fyrsta tapið

Bayern tapaði sínum fyrsta leik á tímabilinu á miðvikudaginn eftir mörk frá Arsenal-mönnunum Jurriën Timber, Noni Madueke og Gabriel Martinelli á Emirates-leikvanginum.

En þó að menn Vincent Kompany hafi sigrað ríkjandi meistara PSG 2-1 fyrr í þessum mánuði fannst Kimmich, miðjumanni Bayern og þýska landsliðsins, að þeir hafi boðið upp á meiri ógn og „meiri fótboltaleik.“

„Nei, ég held ekki,“ sagði Kimmich við TNT Sport þegar hann var spurður hvort Arsenal væri erfiðasta liðið sem Bayern hefði mætt á þessu ári. „Mér fannst PSG vera erfiðasta liðið. Sérstaklega vegna þess hvernig þeir spila,“ sagði Kimmich.

Treysta á föst leikatriði

„Arsenal er allt öðruvísi. Þeir treysta á föst leikatriði. Þeir elska að spila langa bolta. Þeir elska að berjast um aðra bolta. Þetta var allt annar leikur en gegn PSG. Sá leikur var meiri fótboltaleikur,“ sagði Kimmich.

„Í dag snerist þetta ekki svo mikið um fótbolta. Þetta snerist meira um leikstjórn og einvígi. Arsenal gerði það virkilega vel í kvöld. Sigur þeirra var verðskuldaður en við verðum að læra af þessum leik,“ sagði Kimmich.

Mark Timber kom eftir hornspyrnu frá Bukayo Saka en þriðja markið, frá Martinelli, kom eftir langan bolta í skyndisókn.

Ummæli Kimmich koma í kjölfar þess að Arteta, stjóri Arsenal, sagði að Arsenal hefði sigrað „besta lið Evrópu“ í Bayern München.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×