Innlent

Tíu milljarða fjár­festing í Helgu­víkur­höfn vegna NATO

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá undirrituninni í morgun.
Frá undirrituninni í morgun. Vísir/SmáriJökull

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra, Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ og Halldór K. Hermannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafnar, undirrituðu viljayfirlýsingu um fyrirhugaða uppbyggingu mannvirkja í Helguvíkurhöfn á tíunda tímanum í morgun.

Um er að ræða stækkun á olíubirgðastöð Atlantshafsbandalagsins í Helguvík, sem felur í sér byggingu nýs 390 metra viðlegukants og birgðageymslu fyrir 25 þúsund rúmmetra af skipaeldsneyti. Um er að ræða sameiginlegt verkefni íslenskra stjórnvalda og Atlantshafsbandalagsins sem fjármagnar framkvæmdirnar, en áætlað er að fjárfesting bandalagsins geti numið allt að tíu milljörðum króna.

„Það er mikilvægt að styrkja varnarinnviði og getu hér á Íslandi til að geta tryggt betur stuðning við skip bandalagsríkja sem sinna eftirlit og aðgerðum á Norður-Atlantshafi. Þá nýtist þessi aðstaða einnig fyrir okkur og stuðlar jafnframt að auknu öryggi hvað varðar eldsneytisbirgðir og hafnaraðstöðu,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.

Nú stendur yfir undirbúningsvinna og hönnun umræddra mannvirkja í Helguvík sem jafnframt geta nýst í borgaralegum tilgangi. Stefnt er að því framkvæmdir hefjist síðla árs 2026 og þeim ljúki árið 2029.

„Reykjanesbær og Reykjaneshöfn fagna fyrirhugaðri uppbyggingu mannvirkja á vegum Atlantshafsbandalagsins í Helguvík, sem ætlað er að auka öryggi á Norður-Atlantshafi,“ segir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

Fréttin var uppfærð með uppfærðri tilkynningu ráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×