Erlent

Makar Bandaríkja­manna hand­teknir í dvalar­leyfis­viðtölum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Útlendingayfirvöld hafa verið að mæta í dómsali og viðtöl til að handtaka einstaklinga hvers mál voru í lögbundnu ferli.
Útlendingayfirvöld hafa verið að mæta í dómsali og viðtöl til að handtaka einstaklinga hvers mál voru í lögbundnu ferli. Getty/Michael M. Santiago

Þrír erlendir ríkisborgarar sem mættu ásamt mökum sínum og jafnvel börnum í lokaviðtal hjá útlendingayfirvöldum í Bandaríkjunum í tengslum við umsókn um græna kortið svokallaða, voru handteknir í lok viðtalsins.

„Ég þurfti að taka barnið okkar úr fangi grátandi eiginkonu minnar,“ segir hinn bandaríski Stephen Paul, sem var mættur í viðtalið með eiginkonu sinni, hinni bresku Katie Paul, og fjögurra mánaða barni þeirra.

New York Times ræddi við Paul í tengslum við málið en atvikin áttu sér stað í San Diego í síðustu viku. Lögmenn í borginni áætla að tugir maka Bandaríkjamanna hafi verið handteknir á síðustu mánuðum. 

Engin eintaklinganna sem voru handteknir í síðustu viku höfðu brotið nokkuð af sér en ástæða handtakanna var líklega sú að vegabréfsáritun þeirra hafði runnið út á meðan umsóknin um græna kortið, varanlegt dvalarleyfi, fór sína leið í kerfinu.

Þar sem ferlið getur tekið langan tíma er alþekkt að þetta gerist en fram til þessa hefur aldrei verið gripið til aðgerða gegn einstaklingum vegna þessa. Nú virðast útlendingayfirvöld hins vegar líta svo á að viðkomandi hafi brotið gegn lögum með því að dvelja lengur í landinu en heimild þeirra kvað á um. Þar með eru yfirvöld komin með vopn í hendur til að grípa til aðgerða og senda fólk úr landi.

Lögmaður Paul hjónanna höfðaði mál til að koma í veg fyrir brottflutning Katie, sem yfirvöld höfðu hótað að senda úr landi án nokkurar málsmeðferðar. Henni var í kjölfarið sleppt og hefur nú fengið græna kortið.

Aðrir sem sætt hafa sömu meðferð sitja enn í varðahaldi og eru óvissir um framtíð sína.

Hér má finna ítarlega umfjöllun New York Times um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×