Innlent

Reisa minnis­merki um síðutogaraútgerð á Akur­eyri

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Nokkurn veginn svona stendur til að minnismerkið muni líta út samkvæmt teikningum sem nálgast má í minnisblaði á vef bæjarins.
Nokkurn veginn svona stendur til að minnismerkið muni líta út samkvæmt teikningum sem nálgast má í minnisblaði á vef bæjarins. Akureyrarbær/Teiknistofa Norðurlands

Bæjarráð Akureyrarbæjar hefur samþykkt að ganga til samninga við Sjómannafélag Eyjafjarðar um uppsetningu og viðhald minnisvarða um síðutogaraútgerð á Akureyri. Til stendur að minnisvarðinn verði reistur við strandstíginn við Drottningarbraut á Akureyri, en áætlaður kostnaður vegna minnisvarðans er hálf milljón króna sem bærin mun leggja til, en að öðru leyti skal Sjómannafélag Eyjafjarðar standa straum af kostnaði vegna verksins.

Samningurinn var samþykktur á fundi bæjarráðs þann 12. nóvember en í honum er útlistað hvernig verkefninu skuli háttað.

„Minnismerkið er smíðað að frumkvæði áhugahóps um síðutogaraútgerð en verður í eigu Sjómannafélags Eyjafjarðar. Minnismerkið verður staðsett við norðurenda bílastæðis við athafnasvæði Nökkva, sjá meðfylgjandi yfirlitsmynd sem er fylgiskjal nr. 1 með samningi þessum. Verkið stendur á hringlaga fleti sem er 7 metrar í þvermál en aðrar málstærðir má sjá á meðfylgjandi teikningu sem er fylgiskjal nr. 2 með samningi þessum,” segir þar meðal annars.

Sjómannafélagið verður þannig eigandi minnismerkisins og ber ábyrgð á uppsetningu þess, viðhaldi og öryggi á svæðinu við uppsetningu. Bærinn leggur hins vegar til 500 þúsund krónur sem skulu dekka kostnað vegna jöfnunar undirlags, rafmagnstengingar og annars kostnaðar við útfærslu og staðsetningu. Þá ber Sjómannafélaginu að hafa samráð við Umhverfis- og mannvirkjasvið við uppsetningu verksins.

Í fundargögnum bæjarins má nálgast frekari upplýsingar og teikningar af verkinu og hvar stendur til að reisa það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×