Tónlist

Patti Smith heldur tón­leika í Hörpu og Hofi

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Patti Smith hefur oft komið áður til Íslands að halda tónleika en nú er nokkuð liðið síðan síðast.
Patti Smith hefur oft komið áður til Íslands að halda tónleika en nú er nokkuð liðið síðan síðast. Getty

Tónlistarkonan Patti Smith kemur til Íslands næsta sumar og mun troða upp með hljómsveit sinni á tvennum tónleikum, í Hörpu og í Hofi.

Þetta kemur fram í tilkynningu skipuleggjandans Tónleiks. Þar segir að fyrri tónleikarnir verði í Eldborg í Hörpu sunnudaginn 31. maí og þeir seinni verði þriðjudaginn 2. júní í Hofi á Akureyri.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Patti Smith heldur tónleika á Íslandi. Hún kom fram á Nasa árið 2005 og í Háskólabíó árið eftir. Þá tróð hún upp á tónleikunum Stopp - gæt­um garðsins! í Hörpu árið 2014, hélt 40 ára afmælistónleika Horses í Hörpu árið 2015 og kom fram á tónlistarhátíðinni Secret Solstice árið 2019. Og íslenskir tónleikagestir virðast aldrei fá nóg.

Patti Smith er algjör goðsögn.Tom Dumont

Patti Smith þarf vart að kynna fyrir lesendum en hún er einn áhrifamesti listamaður sinnar samtíðar. Smith er allt í senn söngkona, lagasmiður, ljóðskáld og myndlistarkona en hún sló í gegn plötunni Horses árið 1975. 

Smith hefur gefið út meira en tíu plötur á ferli sínum, fleiri tugi bóka og sýnt myndlistarsýningar um allan heim. Smith hefur verið margverðlaunuð og heiðruð fyrir verk sín, var innlimuð í frægðarhöll rokksins árið 2007, hlaut bandarísku bókmenntaverðlaunin árið 2010 fyrir endurminningarnar Just Kids og var sæmd Ordre national de la Légion d'honneur, æðstu orðu Frakklands á sviði lista og bókmennta, árið 2022.

Miðasala á tónleikana hefst 2. desember en hægt er að kaupa þá á vefsíðum staðarhaldara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.