Innlent

Vill svara ESB með tollahækkun

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. Vísir/Anton Brink

Þingmenn Framsóknar virðast boða nokkurs konar tollastríð við Evrópusambandið í þingsályktunartillögu sem þeir hyggjast leggja fram en hún er sögð fela í sér tollahækkun á innflutt matvæli. Fjármálaráðherra hafnar hugmyndinni og segir Íslendinga eiga allt undir í frjálsum viðskiptum.

„Við getum augljóslega notað þau rök sem Evrópusambandið notar. Að tollfrjáls innflutningur á matvælum frá Evrópusambandinu hafi umtalsverð áhrif á innlenda matvælaframleiðslu,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun, þar sem hann ræddi verndaraðgerðir Evrópusambandsins sem bitna einnig á Íslendingum og Norðmönnum.

Sigurður Ingi spurði Daða Má Kristófersson, fjármálaráðherra, hvort til greina komi, í ljósi stöðunnar, að hækka tolla á innflutt matvæli frá aðildarríkjum sambandsins til þess að vernda innlenda framleiðslu „Með sama hætti og Evrópusambandið verndar sitt járnblendi,“ sagði Sigurður.

Fjármálaráðherra sagði enga vestræna þjóð eiga eins mikið undir og Íslendingar hvað frjáls viðskipti varðar.

„Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að standa vörð um þetta kerfi. Það er hins vegar ljóst að þetta þarf að hafa afleiðingar. Við getum ekki setið hjá og horft á þessar breytingar eiga sér stað. Við eigum mikið undir og við þurfum að standa með áframhaldandi frelsi og reglum í samskiptum þjóða,“ sagði Daði.

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra.Vísir/Anton Brink

Sigurður Ingi boðaði þingsályktunartillögu Framsóknarmanna, nokkurs konar tollastríð, sem lítur að því að hækka tolla á matvæli en lækka á móti virðisaukaskatt tímabundið til að draga úr verðhækkunum sem gætu fylgt slíkum tollum. Daði Már sagðist ósammála þeirri nálgun.

„Varðandi bix með tolla og skatta til að hækka verð og lækka verð, að þá er það „pissa í skóinn“ hagfræði sem ég kann ekki að meta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×