Innlent

Kom ó­á­nægju sinni á fram­færi við von der Leyen

Kjartan Kjartansson skrifar
Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, með símann á lofti í stjórnarráðinu. Ekki fylgdi sögunni hvort myndin hefði verið tekin í miðju símtali hennar við forseta framkvæmdastjórnar ESB.
Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, með símann á lofti í stjórnarráðinu. Ekki fylgdi sögunni hvort myndin hefði verið tekin í miðju símtali hennar við forseta framkvæmdastjórnar ESB. Facebook-síða forsætisráðherra

Forsætisráðherra segist hafa komið óánægju íslenskra stjórnvalda með verndaraðgerðir Evrópusambandsins vegna kísiljárns á framfæri við Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, í morgun. Von der Leyen hafi sagt Ísland áfram geta reitt sig á aðgengi að innri markaði ESB.

Framkvæmdastjórnin hóf aðgerðir til þess að vernda evrópska járnblendiframleiðslu í vikunni. Íslenskur kísilmálmur fékk ekki undanþágu þrátt fyrir aðild Ísland að EES-samningnum. Ísland verður nú háð innflutningskvótum á kísilmálmi í Evrópu næstu þrjú árin.

Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, segist hafa rætt við von der Leyen um aðgerðirnar í síma í morgun.

„Ég kom skýrt til skila óánægju okkar með þessa niðurstöðu. Og að hún væri ekki í takti við það sem við æti að búast í okkar samskiptum,“ skrifar Kristrún í færslu á Facebook.

Von der Leyen hafi staðfest í símtalinu að aðgerðirnar væru sértækt tilvik og gæfu ekki fordæmi fyrir aðrar ákvarðanir. Ákvörðunin snerist ekki um EES-samninginn.

„Ísland getur áfram reitt sig á aðgengi að innri markaði ESB og því fjárfestingarumhverfi sem samningnum fylgir,“ skrifar forsætisráðherra.

Mikilvægt hafi verið að fá staðfestingu fá forseta framkvæmdastjórnarinnar að EES-samningurinn stæði sterkur þrátt fyrir „þetta hliðarspor“.

Íslensk stjórnvöld hafa sagt ákvörðun ESB um verndaraðgerðirnar og að undanskilja ekki EES-ríkin frá þeim ganga gegn „anda“ samningsins. Framkvæmdastjórnin segir aftur á móti að aðgerðirnar rúmist innan ákvæða samningsins sem leyfi aðilum hans að grípa til öryggisráðstafana, meðal annars til þess að tryggja hagsmuni atvinnugreina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×