Fótbolti

Brjálaður fögnuður, nafni flug­vallar breytt og T vantaði í tattú

Sindri Sverrisson skrifar
Heimir Hallgrímsson og hans menn hafa fært Írum mikla gleði sem verður ekki minni ef liðið nær svo alla leið inn á HM. Það gæti kallað á fleiri tattú.
Heimir Hallgrímsson og hans menn hafa fært Írum mikla gleði sem verður ekki minni ef liðið nær svo alla leið inn á HM. Það gæti kallað á fleiri tattú. Samsett/Getty/Twitter

Ætla mætti að Írar væru komnir inn á HM 2026 í fótbolta, svo mikil er gleði manna eftir sigrana mögnuðu gegn Portúgal og Ungverjalandi sem komu liðinu í HM-umspilið. Gleðin var til að mynda ósvikin á flugvellinum í Dublin.

Írarnir hans Heimis Hallgrímssonar gerðu nokkuð sem sárafáir bjuggust við þegar þeir unnu bæði Portúgal á heimavelli, 2-0, og svo ótrúlegan endurkomusigur gegn Ungverjum í Búdapest í gær, 3-2. 

Þess vegna eiga þeir enn von um að komast á stærsta heimsmeistaramót sögunnar, í Norður-Ameríku næsta sumar, en til þess þurfa þeir að slá út tvo andstæðinga í umspilinu í lok mars.

Á Twitter-síðu flugvallarins í Dublin hafa menn verið í miklu stuði síðasta sólarhringinn og meðal annars grínast með það að Liverpool-maðurinn Dominik Szoboszlai, fyrirliði Ungverja, hafi ekki heimild til að ferðast til Bandaríkjanna.

Þá þóttust þeir hafa breytt nafninu á flugvellinum og nefnt hann eftir Troy Parrott, manninum sem skoraði öll fimm mörkin í leikjunum gegn Portúgal og Unverjalandi, þar á meðal dramatíska sigurmarkið á lokasekúndunum gegn Ungverjum.

Á flugvellinum var líka hoppað, klappað og fagnað ákaft þegar Parrott tryggði sigurinn gegn Ungverjum, og sömu sögu er að segja af knæpum víða um Írland og jafnvel á Balí, eins og sjá má hér að neðan.

Þegar stuðningsmenn Írlands sneru svo heim frá Búdapest í dag voru þeir teknir tali á flugvellinum í Dublin, og í ljós kom að sumir höfðu gengið svo langt að fá sér húðflúr eftir sigurinn.

„Goggaðir af páfagauknum“, eða „Pecked by the parrot“ var tattúáletrunin sem varð fyrir valinu en reyndar átti að standa Parrott, til heiðurs hetju írska liðsins. „Það vantar t en svona er þetta. Ég man ekki eftir að hafa fengið mér þetta,“ sagði þessi hressi stuðningsmaður sem eflaust er hæstánægður með viðsnúning írska liðsins undir stjórn Heimis.

Hafa ber í huga að Írar hafa ekki komist á HM í yfir tuttugu ár, eða frá árinu 2002, og ekki spilað á stórmóti síðan á EM 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×