Skoðun

Er virki­lega hvergi pláss fyrir ein­hverfan for­ritara?

Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir skrifar

Ég á vin sem er einhverfur. Hann er líka klár, margfróður, þrautseigur, skemmtilegur, fyndinn og býr yfir aðdáunarverðu jafnaðargeði. Hann er frábær manneskja og ég er heppin að hafa hann í lífi mínu. Hann er líka menntaður tölvunarfræðingur og auk þess, sem er ástæða þess að ég skrifa þetta, er hann að glíma við langtímaatvinnuleysi.

Áður en vinur minn kláraði námið sagði hann einu sinni að eina vonin hans í lífinu væri að útskrifast sem tölvunarfræðingur. Það hljómar niðurdrepandi en ég skil alveg hvað hann meinar. Staða einhverfra á vinnumarkaði er erfið. Stór hluti starfa geta verið fjandsamleg einhverfu fólki, full af flóknum mannlegum samskiptum, óyrtum kröfum og í alls konar umhverfi sem getur leikið skynfærin grátt. Jafnvel í auglýsingum fyrir störf sem hafa ekkert með mannleg samskipti að gera er gerð krafa um framúrskarandi samskiptahæfni. Samkvæmt erlendri tölfræði er mjög hátt hlutfall einhverfra án atvinnu.

Forritun er starf sem er talið henta einhverfu fólki mjög vel, og af minni reynslu að dæma þá er það almennt satt. Þau samskipti sem starfið felur í sér eru aðallega við þéttan hóp vinnufélaga og fjalla um tæknileg atriði, auk þess sem starfsumhverfið er rólegt. Verkefnin sem maður glímir við dags daglega krefjast þekkingar, rökhugsunar, hæfni til að kafa ofan í vandamálin og skynbragð á hin ýmsu smáatriði. Þetta eru eiginleikar sem einhverft fólk er oft framúrskarandi í.

Vinur minn er fullkomlega eðlilegur ungur maður sem þráir ekkert heitar en að vinna fyrir sér og lifa sínu lífi eins og annað fólk. Hann er heilsuhraustur og hefur þrek og vilja til þess að vinna. Þrátt fyrir þetta gengur honum ekki að finna sér vinnu við hæfi. Það sem stendur í vegi fyrir honum er kannski helst það að hann er lítið gefinn fyrir yfirborðskennt spjall (e. small talk), forðast augnsamband og sýnir minni svipbrigði en flest fólk myndi gera í sömu aðstæðum. Hann virkar ekki endilega „hress“ á yfirborðinu. Hann tjáir sig á beinskeyttan hátt, segir það sem hann meinar og les ekki mikið á milli línanna, eitthvað sem ég tel alls ekki vera ókost, þvert á móti mætti samfélagið allt taka þennan eiginleika sér til fyrirmyndar. Ekkert af þessu hefur áhrif á hæfni hans til að starfa sem forritari, þetta gerir það hins vegar að verkum að hann á erfiðara með hefðbundin atvinnuviðtöl. Sumt fólk getur mistúlkað svipbrigðaleysið sem áhugaleysi eða skort á augnsambandi sem dónaskap, og ég hvet fólk sem lítur þannig á hlutina til þess að kynna sér einhverfu og tileinka sér meira umburðarlyndi í sínum samskiptum.

Það er ömurlegt að horfa upp á það að ungur maður sem lagði það á sig að fara í háskólanám til að afla sér verðmætrar þekkingar, sem vill ekkert meira en að starfa við eitthvað þar sem hans styrkleikar fá að njóta sín, fái það ekki. Það er ekki bara ömurlegt fyrir hann sjálfan heldur er það tap fyrir allt samfélagið að hann, og annað fólk í hans stöðu, geti ekki fengið að láta ljós sitt skína og sé útilokað frá þátttöku í því að skapa samfélaginu öllu verðmæti. Ég biðla til ykkar að ráða vin minn í vinnu. Hvaða vinnustaður sem er væri heppinn að fá hann til vinnu. Ég hef áhyggjur af heilsu hans og velferð, og ég hef miklar efasemdir um heilbrigði menningarinnar á vinnumarkaði sem hafnar algjörlega starfskröftum hrausts ungs manns í blóma lífsins af því hann er ekki nógu góður í að spjalla sig í gegnum atvinnuviðtal.

Ef þú veist um einhvern sem vill ráða vin minn endilega hafðu samband, ég er á ja.is.

Höfundur er tölvunarfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×