Fótbolti

Robbie Keane syngjandi glaður, þökk sé Heimi og strákunum hans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robbie Keane var heldur betur kátur á bar í Búdapest eftir leikinn.
Robbie Keane var heldur betur kátur á bar í Búdapest eftir leikinn. Getty/Stephen McCarthy/Adam Pretty/

Öll írska þjóðin fagnaði í gær vel árangri karlalandsliðsins undir stjórn Heimis Hallgrímssonar og líka þeir sem eru með vinnu í Ungverjalandi.

Írar enduðu HM-drauma heimamanna í Ungverjalandi með 3-2 endurkomusigri í Búdapest í gær. Írar tóku þar með annað sætið af Ungverjum og fara í umspilið um laus sæti á HM næsta sumar.

Ungverjar voru í dauðafæri á að taka annað sætið í riðlinum en Heimir og lærisveinar Heimis unnu þrjá síðustu leiki sína. Ótrúleg endurkoma hjá liði og þjálfara sem höfðu fengið sinn væna skammt af gagnrýni allt þetta ár.

Troy Parrott var hetja írska liðsins en hann skoraði tvisvar í sigri á Portúgal og svo öll þrjú mörkin í sigrinum á Ungverjalandi í gær.

Robbie Keane skoraði sjálfur 68 mörk í 146 landsleikjum fyrir Íra en hann er núna þjálfari ungverska liðsins Ferencváros.

Eftir leikinn var Keane mættur til að fagna sigri með stuðningsmönnum írska landsliðsins sem höfðu ferðast til Búdapest.

Þar sást Keane fara upp á svið á bar í Búdapest og syngja sigursöngva við góðar undirtektir. Hann söng meðal annars einn til heiðurs umræddum Troy Parrott.

Hann söng „There's Only Troy Parrott“ við jólalagið heimsfræga „Winter Wonderland“ eins og sjá má hér fyrir neðan.

Það á síðan eftir að koma í ljós hvernig þetta fer í vinnuveitendur hans hjá Ferencváros, hvað þá leikmenn hans sem voru að spila með ungverska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×