Fótbolti

Haaland þakk­látur mömmu sinni

Sindri Sverrisson skrifar
Gry Marita Braut og sonur hennar Erling Haaland stilltu sér upp á mynd eftir sigur Manchester City í Meistaradeild Evrópu sumarið 2023.
Gry Marita Braut og sonur hennar Erling Haaland stilltu sér upp á mynd eftir sigur Manchester City í Meistaradeild Evrópu sumarið 2023. Getty/Michael Regan

Erling Haaland er með alvöru íþróttagen sem eflaust hafa hjálpað honum að verða að þeirri markamaskínu sem hann er. Hann kveðst afar þakklátur fyrir mömmu sína, Gry Marita Braut.

Í kvöld geta Haaland og félagar hans í norska fótboltalandsliðinu fagnað sæti á stórmóti í fyrsta sinn.

Í rauninni gætu þeir nú þegar verið farnir að fagna því Ítalía þarf að vinna níu marka sigur gegn Noregi í kvöld til þess að taka HM-sætið af Norðmönnum. Leikurinn hefst klukkan 19:45 á Sýn Sport Viaplay.

„Yfirmaðurinn á heimilinu“

Á blaðamannafundi í gær sat Haaland fyrir svörum og var spurður, sjálfsagt af ítölskum blaðamanni, um það hvaða þýðingu mamma hans hefði haft fyrir hann. Gry Marita Braut er sjálf mikil íþróttakona en hún keppti í frjálsum íþróttum, bæði í fjölþraut og í spretthlaupum.

„Hún hefur auðvitað skipt mig alveg gríðarlega miklu máli,“ sagði Haaland og hélt áfram:

„Hún er enn þá yfirmaðurinn á heimilinu. Það mun hún alltaf vera. Svo já, hún er yfirmaðurinn í mínu lífi,“ sagði Haaland sem getur eflaust þakkað mömmu sinni hraðann sem hann býr yfir. Pabbi Haaland er svo Alf Inge Haaland sem lék meðal annars 34 A-landsleiki fyrir Noreg og með Manchester City, Leeds og Nottingham Forest.

Hlógu að tali um 9-0 sigur

Fjölskyldan öll mun eflaust fagna vel í kvöld og á blaðamannafundi ítalska landsliðsins í gær hlógu menn hreinlega að spurningum um hvort mögulegt væri fyrir Ítalíu að taka efsta sætið af Noregi:

„Við skulum vera alveg heiðarlegir með að það yrði hrikalega erfitt,“ sagði Federico Dimarco. Þjálfarinn Gennaro Gattuso bætti við:

„9-0 er akkúrat núna óhugsandi. Í fótbolta ætti maður aldrei að segja aldrei en við verðum að vera raunsæir hérna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×