Fótbolti

Cristiano Ronaldo segist eiga bara eitt eða tvö ár eftir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fagnar einu af 143 mörkum sínum fyrir portúgalska landsliðið.
Cristiano Ronaldo fagnar einu af 143 mörkum sínum fyrir portúgalska landsliðið. Getty/Eric Verhoeven

Cristiano Ronaldo viðurkenndi í viðtali í gær að hann búist við því að sjötta heimsmeistaramótið hans á næsta ári, þegar hann verður 41 árs, verði hans síðasta.

„Klárlega, já, því ég verð 41 árs,“ sagði Ronaldo við Becky Anderson, fréttaþul CNN, í beinni útsendingu frá æfingabúðum portúgalska landsliðsins.

Ronaldo útskýrði að þegar hann segist ætla að hætta í fótbolta „bráðlega“ þá þýði það „líklega eitt, tvö ár.“

Portúgal ætti að tryggja sér sæti á næstu dögum á heimsmeistaramótinu sem haldið verður í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó. Liðið þarf aðeins tvö stig úr síðustu leikjum sínum í undankeppninni, á útivelli gegn Írlandi á fimmtudag og á heimavelli gegn Armeníu, sem er í neðsta sæti, á sunnudag.

Fimm mörk Ronaldos í fjórum leikjum í undankeppninni hafa aukið heimsmet hans í karlaflokki í 143 mörk fyrir landslið.

Finnst ég enn vera snöggur og skarpur

„Mér líður mjög vel um þessar mundir. Ég skora mörk, mér finnst ég enn vera snöggur og skarpur, ég nýt þess að spila með landsliðinu,“ sagði hann. Varðandi lok ferilsins sagði Ronaldo: „Verum hreinskilin, þegar ég segi bráðlega þá meina ég líklega eitt, tvö ár,“ sagði Ronaldo.

„Ég nýt augnabliksins. En þegar ég segi bráðlega, þá er það mjög bráðlega, því ég gef allt mitt í fótboltann. Ég hef verið í þessum leik síðustu 25 ár, ég hef gert allt. Ég á mörg met. Ég er virkilega stoltur. Þannig að við skulum njóta augnabliksins, lifa í núinu,“ sagði Ronaldo.

Heimsmeistaratitillinn er enn stærsti bikarinn sem Ronaldo hefur ekki enn unnið á glæstum ferli, en hann varð Evrópumeistari með Portúgal árið 2016.

Ronaldo skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við Al Nassr í júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×