Fótbolti

Graham Potter: Það er allt í lagi með Alexander Isak

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Isak sat allan tímann á varmannabekk Liverpool í tapleiknum á móti Manchester City um síðustu helgi.
Alexander Isak sat allan tímann á varmannabekk Liverpool í tapleiknum á móti Manchester City um síðustu helgi. Getty/Robbie Jay Barratt

Alexander Isak tók ekki þátt í stórleik Liverpool og Manchester City í ensku úrvalsdeildinni um helgina en hann er nú mættur á æfingar með sænska landsliðinu fyrir leiki í undankeppni HM.

Potter valdi hann í landsliðið þótt sænski framherjinn hafi ekki spilað fyrir Liverpool síðan 22. október.

„Ég hef talað stuttlega við hann. Honum líður vel, það er allt í lagi með hann,“ sagði Graham Potter við sænska ríkisútvarpið.

Nýr landsliðsþjálfari Svíþjóðar sagði strax við val á hópnum að Alexander Isak myndi ekki spila alla undankeppnisleikina fyrir HM gegn Sviss og Slóveníu en að hann gæti tekið þátt í leikjunum.

Sænskir fjölmiðlar hafa fjallað um sögusagnir um að sóknarstjarna Liverpool myndi missa af landsliðsverkefninu vegna nárameiðsla sem hafa hrjáð hann undanfarið en Potter eyddi þeim efasemdum. Isak er mættur til æfinga.

Það var líka vafi um þátttöku annars leikmanns úr ensku úrvalsdeildinni.

Potter sagði frá því á blaðamannafundi í Marbella, þar sem Svíþjóð undirbýr sig fyrir komandi undankeppnisleiki fyrir HM, að allir leikmenn sem valdir voru, fyrir utan Lucas Bergvall, séu komnir til Spánar.

Bergvall, sem fékk heilahristing í síðustu viku gegn Chelsea, er á leiðinni.

„Við verðum að athuga með læknana. Hann æfir á morgun en hann má ekki skalla,“ sagði Potter.

Fyrsti landsleikur Potters sem landsliðsþjálfari Svíþjóðar fer fram á laugardag, á útivelli gegn Sviss í undankeppni HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×