Fótbolti

Rúm­lega þúsund leik­menn til rann­sóknar: Liðsfélagi Loga settur í bann

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Celil Yuksel (til vinstri) er liðsfélagi Loga Tómassonar (til hægri) en Yuksel mun ekki spila fyrr en rannsókn málsins lýkur hið fyrsta. 
Celil Yuksel (til vinstri) er liðsfélagi Loga Tómassonar (til hægri) en Yuksel mun ekki spila fyrr en rannsókn málsins lýkur hið fyrsta.  Stefanos Kyriazis/NurPhoto via Getty Images

Átta hafa verið handteknir og 1024 leikmenn í Tyrklandi hafa verið settir í bann meðan þeir sæta rannsókn vegna veðmála á fótboltaleiki.

Fyrr í þessum mánuði voru 149 dómarar dæmdir í bann eftir að hafa veðjað á leiki. Nokkrir dómarar eru enn til rannsóknar og í dag tilkynnti tyrkneska knattspyrnusambandið að 1024 leikmenn hefðu verið settir í tímabundið bann vegna gruns um ólögleg veðmál.

Þar að auki greinir tyrkneski ríkismiðillinn Anadolu frá því að framkvæmdastjóri úrvalsdeildarfélagsins Eyupspor, Murat Ozkaya, hefði verið handtekinn ásamt sjö öðrum.

Af þessum 1024 leikmönnum eru aðeins 27 sem spila í úrvalsdeildinni en þar með taldir eru leikmenn hjá stórliðunum Galatasaray og Besiktas, hins vegar er enginn frá Fenerbahce en einn liðsfélagi Loga Tómassonar hjá Samsunspor, Celil Yuksel, er á listanum.

Bannið mun ekki hafa áhrif á keppni í úrvalsdeildinni og næstefstu deildinni en öllum leikjum í neðri deildunum næstu tvær vikurnar hefur verið frestað.

Þar að auki hefur tyrkneska sambandið sótt um auka fimmtán daga félagaskiptaglugga frá FIFA til að koma til móts við liðin sem missa leikmenn í bann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×