Fótbolti

Rekinn að­eins sex mánuðum eftir að hann yfir­gaf Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Samstarf Arne Slot og John Heitinga skilaði Englandsmeistaratitli á fyrsta tímabili.
Samstarf Arne Slot og John Heitinga skilaði Englandsmeistaratitli á fyrsta tímabili. Getty/Peter Byrne/

Hollenska fótboltafélagið hefur ákveðið að reka knattspyrnustjórann John Heitinga, fyrrverandi aðstoðarþjálfara Arne Slot hjá Liverpool.

Heitinga þurfti að taka pokann sinn innan við sex mánuðum eftir að hann kom til félagsins frá Liverpool.

Hinn 41 árs gamli Heitinga vann aðeins fimm af þeim ellefu leikjum sem hann stýrði í hollensku úrvalsdeildinni en liðið er nú átta stigum á eftir toppliði Feyenoord.

Ajax hefur auk þess tapað öllum fjórum leikjum sínum í Meistaradeildinni á þessu tímabili, þar á meðal var 3-0 tap á heimavelli gegn Galatasaray á miðvikudag sem var síðasti leikur liðsins undir stjórn Heitinga.

Heitinga, sem er fyrrverandi leikmaður Everton, var aðstoðarþjálfari Slot á síðasta tímabili þegar Liverpool vann ensku úrvalsdeildina.

Hann skrifaði undir tveggja ára samning við Ajax í lok maí og sneri þar með aftur til félagsins þar sem hann lék yfir tvö hundruð leiki áður en hann varð stjóri varaliðsins og bráðabirgðastjóri aðalliðsins.

„Þetta er sársaukafull ákvörðun. Við vitum að það getur tekið tíma fyrir nýjan þjálfara að vinna með leikmannahóp sem hefur tekið breytingum. Við höfum gefið John þann tíma, en við teljum að það sé best fyrir félagið að ráða einhvern annan til að leiða liðið,“ sagði Alex Kroes, yfirmaður knattspyrnumála hjá Ajax, á vefsíðu félagsins:

Aðstoðarþjálfarinn, hinn sextugi Fred Grim, mun stýra Ajax til bráðabirgða.

Hollenskir fjölmiðlar hafa greint frá því að Ajax hafi áhuga á að ráða fyrrverandi stjóra sinn, Erik ten Hag, sem var rekinn frá Manchester United í október 2024 og entist aðeins í tvo leiki í þýsku úrvalsdeildinni með Bayer Leverkusen áður en honum var sagt upp í september á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×