Sport

Kú­rekarnir í Dallas syrgja fallinn fé­laga

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Marshawn Kneeland er látinn.
Marshawn Kneeland er látinn. Cooper Neill/Getty Images

Marshawn Kneeland, leikmaður Dallas Cowboys í NFL deild Bandaríkjanna, er látinn. 

Kneeland var aðeins 24 ára gamall, hann var valinn í seinni umferð nýliðavalsins á síðasta ári, hefur spilað átján leiki fyrir Dallas Cowboys og skoraði fyrsta snertimarkið á ferlinum síðasta mánudag í tapi gegn Arizona Cardinals.

„Með miklum harm staðfesti að skjólstæðingur minn og náinn vinur, Marshawn Kneeland, lést í nótt“ skrifaði umboðsmaður hans Jonathan Perzley í yfirlýsingu.

„Ég hef séð hann vaxa úr grasi, frá því hann var vongóður strákur í Michigan með stóra drauma um að spila fyrir Dallas Cowboys. 

Marshawn lagði hjarta sitt og sál í allt sem gerði, hverja einustu stund sem hann var á vellinum. Að missa einhvern með svona hæfileika, hjarta og góðmennsku er sársauki sem ég á erfitt með að setja í orð“ sagði Perzley einnig.

Samúðarkveðjur hafa borist úr öllum áttum til fjölskyldu hans og kærustu. Liðsfélagar hans hafa margir tjáð sorg sína á samfélagsmiðlum en liðið er í fríviku þessa vikuna og á að mæta aftur til æfinga á mánudag. 

Dallas Cowboys mun veita öllum leikmönnum liðsins, sem það kjósa, sálfræðiaðstoð til að vinna úr áfallinu. 

ESPN og The Athletic greina frá því að lögreglan í Frisco í Texas hafi verið send í útkall seint í gærkvöldi á heimili Kneeland. Þar hafi enginn verið heima en síðar um kvöldið barst önnur ábending, um bíl sem lögreglan veitti eftirför en missti síðan sér úr sjónum.

Bíllinn fannst síðar klesstur og segir í lögregluskýrslu að Kneeland hafi flúið vettvang á fæti. Lík hans fannst skömmu síðar, Kneeland lést af völdum skotsára og talið er að hann hafi ollið þeim sjálfur. 

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×