Innlent

Harpa Elín Haralds­dóttir er látin

Atli Ísleifsson skrifar
Harpa Elín Haraldsdóttir starfaði sem forstöðumaður Kötluseturs í Vík í Mýrdal.
Harpa Elín Haraldsdóttir starfaði sem forstöðumaður Kötluseturs í Vík í Mýrdal. Magnús Hlynur

Harpa Elín Haraldsdóttir, forstöðumaður Kötluseturs í Vík í Mýrdal, er látin, 45 ára að aldri.

Greint er frá andlátinu í Morgunblaðinu í morgun, en hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi síðastliðin laugardag.

Harpa fæddist 28. janúar 1980, dóttir Helgu Þorbergsdóttur hjúkrunarfræðings og Haralds Inga Haraldssonar myndlistarmanns. Fósturfaðir Hörpu er Sigurgeir Már Jensson, heilsugæslulæknir í Vík í Mýrdal.

Í æviágripi segir að Harpa hafi alist upp í Mýrdal en síðar haldið til náms. Hún hlaut BA-gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands og svo meistaragráðu í alþjóðatengslum frá Institut Barcelona Estudis Internacionals. Auk þess hlaut hún diplómapróf í verkefnastjórn og fyrirtækjarekstri og leiðsögumannspróf frá Leiðsöguskóla Íslands.

„Á erlendum vettvangi var Harpa meðal annars verkefnastjóri hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands í Níkaragva og framkvæmdastjóri GeoThermHydro í Síle. Frá í ágúst 2021 veitti hún forstöðu Kötlusetrinu í Vík, samfélagsstofnun þar sem listir, menning, náttúra og saga í Mýrdal eru umfjöllunarefni,“ segir í æviágripinu.

Eftirlifandi eiginmaður Hörpu er Pablo Javier Cárcamo Maldanado frá Síle, en sonur þeirra er León Ingi, fæddur 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×