Viðskipti innlent

Segir mikla vinnu í gangi vegna lánamála

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Daði Már Kristófersson fjármála- og efnahagsráðherra.
Daði Már Kristófersson fjármála- og efnahagsráðherra. Vísir/Sigurjón

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir ráðuneytið hafa undanfarið haft til skoðunar hvernig lánastofnanir geti áfram boðið fasteignalán. Lánastofnanir hafa flestar stöðvað lánveitingar tímabundið vegna dóms Hæstaréttar í vaxtamálinu svokallaða.

Í vaxtamálinu voru skilmálar á lánum Íslandsbanka á breytilegum óverðtryggðum vöxtum voru dæmdir ólöglegir. Landsbankinn og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hafa í kjölfarið dregið mjög úr lánaframboði og beðið er viðbragða hjá Arion banka og Íslandsbanka.

„Við höfum verið mjög upptekin við að skoða hvernig við getum tryggt það að þessir aðilar geti áfram boðið lán. Sú vinna er enn í gangi. Þetta er gríðarstór markaður, það eru mjög margir á honum og á honum er líka samkeppni. Það er ekkert óeðlilegt að fyrirvaralitlar breytingar eins og þessar valdi einhverjum sveiflum,“ segir Daði Már.

„Hins vegar er það þannig að framboð á lánsfé á Íslandi er mjög mikið. Þessir aðilar munu bregðast við. Það er alltaf þannig að þegar þú ert með þessi ólíku form, fasta vexti annars vegar og breytilega vexti hins vegar, að lánin á föstu vöxtunum eru dýrari því það er lánveitandinn sem er raunverulega að taka áhættuna af breytingu vaxta. Þess vegna held ég að þetta sé í sjálfu sér alveg rétt og þess vegna er mjög mikilvægt að við getum leitað leiða til að tryggja framboð á lánum á breytilegum vöxtum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×