Fótbolti

Tyrk­neska sam­bandið segir dómara hafa veðjað á þúsundir leikja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ónefndur dómari í leik Antalyaspor og Basaksehir í tyrknesku deildinni en myndin tengist fréttinni ekki beint.
Ónefndur dómari í leik Antalyaspor og Basaksehir í tyrknesku deildinni en myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty/Orhan Cicek

Tyrkneska knattspyrnusambandið sagði á mánudag að það væri að rannsaka meira en 150 dómara í atvinnumannadeildum tyrkneska fótboltans sem allir eru grunaðir um að veðja á fótboltaleiki.

Ibrahim Hacıosmanoglu, forseti tyrkneska sambandsins, sagði á blaðamannafundi að ríkisstofnanir hefðu komist að því að 371 af 571 virkum dómurum hafi að minnsta kosti einn reikning hjá veðmálafyrirtæki.

Hann sagði að 152 með reikningana hefðu veðjað á fótbolta, þar á meðal sjö dómarar á háu stigi og fimmtán aðstoðardómarar á háu stigi.

Hacıosmanoglu sagði að tíu dómaranna hefðu veðjað á meira en tíu þúsund leiki en þar af veðjaði einn þeirra á 18.227 leiki á fimm árum. Sumir dómaranna gerðu það þó aðeins einu sinni.

„Við vitum að tyrkneski fótboltinn þarfnast breytinga,“ sagði Hacıosmanoğlu. „Skylda okkar er að lyfta tyrkneskum fótbolta upp á réttan stað og hreinsa hann af öllum óhreinindum.“

Hann sagði að aganefnd sambandsins muni taka á málunum tafarlaust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×