Innlent

Kvartanir mannsins um ómannúð­lega með­ferð áður til skoðunar hjá NEL

Lovísa Arnardóttir skrifar
Páley Bergþórsdóttir er lögreglustjóri á Norðurlandi eystra.
Páley Bergþórsdóttir er lögreglustjóri á Norðurlandi eystra. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á Norðurlandi eystra segir kvartanir manns til Nefndar um eftirlit með lögreglu, NEL, áður hafa verið til meðferðar hjá nefndinni án athugasemda hennar. Fjallað var um mál mannsins í kvöldfréttum Sýnar í gær. Ekki er fjallað um það í yfirlýsingu embættisins hvort kvartanir mannsins séu á rökum reistar en þó tekið fram að embættið hafi ekki skilað sínum athugasemdum til NEL.

Lögreglan segir manninn hafa verið úrskurðaðan í síbrotagæslu. Dómstóll eigi eftir að taka til meðferðar 12 ákærur sem gefnar hafa verið út á hendur manninum.

Í yfirlýsingu segir að embættið telji það vandkvæðum bundið að fjalla um kvartanir til NEL í fjölmiðlum án þess að nefndin hafi lokið athugun sinni. Í yfirlýsingu embættis lögreglunnar segir að embættinu hafi ekki enn verið gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum varðandi kvartanir mannsins en að embættið muni afhenda nefndinni öll þau gögn sem hún mun óska eftir.

Fram kom í frétt Sýnar í gær að maðurinn telji sig í þrígang hafa verið beittan ómannúðlegri meðferð í haldi lögreglunnar.

Fyrst í október 2024 þegar hann hafi sparkað í hurð fangaklefans, þá hafi lúgan á klefanum verið opnuð og rafbyssu miðað inn og honum hótað. Í mars hafi svo piparúðu verið sprautað á hann inn um lúgu, hann hafi svo verið látinn dúsa í klefanum í klukkutíma með nærbuxur sínar einar fyrir vitum. Þriðja kvörtun mannsins snýr að því að hann hafi í júlí hvorki fengið vatn né mat í fjórtán klukkustundir í haldi lögreglu. Hreiðar Eiríksson, lögmaður hans, segir slíka meðferð ekki eiga að líðast.

Í síbrotagæslu vegna tuga mála

Í yfirlýsingu embættisins segir að í samhengi við þessa umfjöllun sé þó óhjákvæmilegt að nefna að maðurinn hafi, eftir handtökuna í júlí 2025, verið úrskurðaður í síbrotagæslu vegna tuga mála sem voru til rannsóknar hjá lögreglunni.

„Gefnar hafa verið út 12 ákærur á hendur viðkomandi vegna 24 mála. Allar ákærurnar hafa verið þingfestar í Héraðsdómi Norðurlands eystra. Embættið mun afhenda NEL öll gögn málsins vegna kvartana sakborningsins um leið og óskað verður eftir því,“ segir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×