Erlent

Hafði varað við því að árásamaðurinn væri í lögreglubúning

Samúel Karl Ólason skrifar
Vance Luther Boelter skaut tvo til bana og særði tvo til viðbótar í Minnesota í sumar. Markmið hans var að myrða þingmenn Demókrataflokksins.
Vance Luther Boelter skaut tvo til bana og særði tvo til viðbótar í Minnesota í sumar. Markmið hans var að myrða þingmenn Demókrataflokksins. Getty

Skömmu áður en þungvopnaður maður skaut þingkonu og eiginmann hennar til bana í Minnesota í sumar, höfðu yfirvöld verið vöruð, af dóttur þingmanns sem hann hafði skotið áður, við því að maðurinn væri klæddur í lögreglubúning. Raunverulegir lögregluþjónar létu hann þó óáreittan því þeir héldu að hann væri einnig lögregluþjónn.

Vance Luther Boelter bankaði í júní upp á dyr hjá John Hofmann, ríkisþingmanni í Minnesota, klæddur í lögreglubúning og með grímu. Þegar Hoffman kom til dyra skaut Boelter hann og eiginkonu hans, Yvette, 

Hann skaut seinna meir þingkonuna Melissu Hortman og eiginmann hennar til bana. Í millitíðinni hafði hann setið við hlið lögregluþjóna sem reyndu að tala við hann en létu hann óáreittan þegar hann svaraði þeim ekki.

Fjölmiðlar í Minnesota hafa fengið afrit af samtali dóttur Hoffmans við neyðarlínuna eftir að hjónin voru særð. Það tók mánuði að fá afriti, sem yfirvöld neituðu lengi að afhenda, samkvæmt frétt héraðsmiðilsins KSTP.

Á afritinu kemur fram að dóttirin, sem heitir Hope, sagði að einhver klæddur í lögreglubúning hefði bankað upp á og skotið foreldra hennar. Þau væru á lífi en þyrftu hjálp. Þá sagði hún manninn hafa verið grímuklæddan.

Þessum upplýsingum virðist ekki hafa verið komið áfram til lögregluþjóna.

Um hálftíma eftir að hann skaut Hoffman hjónin var Boelter í bíl sínum fyrir utan heimili annars ríkisþingsmanns Demókrataflokksins í Minnesota en þar voru lögregluþjónar á verði. Þeir keyrðu upp að bíl Boelters og reyndu að tala við hann. Árásarmaðurinn svaraði þeim ekki svo lögregluþjónarnir fóru á brott og eru þeir sagðir hafa talið að Boelter væri þarna til að verja heimili þingmannsins.

Á þessum tímapunkti var hann með falsaða númeraplötu á bíl sínum sem á stóð „Police“ eða „lögregla“.

Klukkutíma eftir það fór Boelter heim til Hortman og myrti hana og eiginmann hennar.

Fjölmiðlar ytra hafa sent yfirvöldum og lögreglunni fyrirspurn um það hvort lögregluþjónar hafi verið látnir vita af því að árásarmaðurinn hafi verið klæddur eins og lögregluþjónn og hvenær það hafi verið gert, hafi það yfir höfuð verið gert. Þeim fyrirspurnum hefur ekki verið svarað en viðbrögð lögreglunnar við árásunum eru til rannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×