Fótbolti

Ronaldo kenndi IShowSpeed að taka víkingaklappið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
IShowSpeed er mikill aðdáandi Cristianos Ronaldo.
IShowSpeed er mikill aðdáandi Cristianos Ronaldo.

Cristiano Ronaldo skoraði glæsilegt mark í sigri Al Nassr í gær og eftir leikinn fagnaði hann með einum sínum mesta aðdáanda.

Portúgalinn skoraði eitt mark, lagði upp annað og klikkaði á vítaspyrnu þegar Al Nassr sigraði Al Fateh, 5-1, í sádiarabísku úrvalsdeildinni í gær. Landi hans, Joao Félix, skoraði þrennu fyrir Al Nassr og franski landsliðsmaðurinn Kingsley Coman var einnig á skotskónum.

Samfélagsmiðlastjarnan IShowSpeed sér ekki sólina fyrir Ronaldo og hann var mættur á leikinn í gær.

Eftir leikinn sýndi Ronaldo IShowSpeed hvernig ætti að slá taktinn í hinu fræga víkingaklappi.

IShowSpeed gerði eins og honum var sagt að gera og Ronaldo klappaði í takt ásamt stuðningsmönnum Al Nassr.

Eftir leikinn rættist svo draumur IShowSpeed þegar Ronaldo fylgdi honum á Instagram og deildi meira að segja mynd af þeim á samfélagsmiðlinum.

Al Nassr hefur unnið alla fimm leiki sína á tímabilinu með markatölunni 19-2 og er með fjögurra stiga forskot á toppi sádiarabísku deildarinnar. Ronaldo hefur skorað fimm af nítján mörkum Al Nassr í deildinni en Joao Félix er kominn með átta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×