Upp­gjörið: Álfta­nes - Grinda­vík 70-79 | Grind­víkingar með fullt hús

Andri Már Eggertsson skrifar
_DSF3191
vísir/Anton

Grindavík vann níu stiga útisigur gegn Álftanesi 70-79. Grindvíkingar voru undir í hálfleik og lokamínúturnar voru æsispennandi en að lokum varð Grindavík fyrsta liðið til að vinna Álftnesinga í vetur.

Fyrsti leikhluti var kaflaskiptur. Gestirnir frá Grindavík fóru betur af stað með Deandre Kane og Jordan Semple í fararbroddi sem gerðu fyrstu tíu stig Grindvíkinga. Álftnesingar voru ekki langt á eftir en staðan var 14-18 eftir fyrsta fjórðung. 

Álftnesingar bitu frá sér í stöðunni 16-22 og gerðu sjö stig í röð. Augnablikið var með heimamönnum á þessum kafla í öðrum leikhluta og Álftanes komst yfir. Athygli vakti að Khalil Shabazz, leikmaður Grindavíkur, sem gerði 40 stig í síðasta leik gerði sín fyrstu stig á vítalínunni eftir 14 mínútur.

Álftnesingar voru funheitir fyrir utan þriggja stiga línuna í öðrum leikhluta og settu niður fimm þrista. Heimamenn komust mest fimm stigum yfir en staðan í hálfleik var 42-39.

Grindvíkingar komu sterkari út í síðari hálfleik. Daniel Mortensen gerði fyrstu fimm stigin og síðan duttu Kane og Shabazz í gang og þá var Kjartani Atla Kjartanssyni, þjálfara Álftnesinga, nóg boðið og tók leikhlé í stöðunni 47-55. Grindvíkingar voru sjö stigum yfir þegar haldið var í fjórða leikhluta.

Með þrautseigju komu Álftnesingar til baka og náðu að minnka forskot Grindavíkur niður í fjögur stig þegar tæplega mínúta var eftir. Daniel Mortensen setti þá niður þriggja stiga körfu og Grindavík vann að lokum 70-79.

Atvik leiksins

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, tók leikhlé í stöðunni 70-74 þegar tæplega mínúta var eftir. Í sókninni endaði Daniel Mortensen að fá opið þriggja stiga skot sem hann setti niður sem lokaði leiknum.

Stjörnur og skúrkar

Jordan Semple var öflugur á báðum endum vallarins. Hann endaði með tvöfalda tvennu þar sem hann gerði 14 stig og tók 12 fráköst. Semple var einnig með fimm stolna bolta.

Álftnesingar voru í vandræðum með að passa upp á boltann og heimamenn töpuðu tuttugu boltum sem var þrettán boltum meira en Grindvíkingar. Dúi Þór Jónsson og David Okeke töpuðu samanlagt ellefu boltum.

Dómararnir

Dómarar kvöldsins voru Bjarki Þór Davíðsson, Jón Þór Eyþórsson og Bjarni Rúnar Lárusson. Einhver atvik voru óskýr eins og gengur og gerist en heilt yfir var þetta vel dæmdur leikur og einstaka atvik höfðu ekki áhrif á úrslit leiksins. 

Stemning og umgjörð

Það var frábær mæting í kvöld enda tvö taplaus lið að mætast og stuðningurinn frábær hjá báðum liðum eins og þessar tvær stuðningsmannasveitir eru þekktar fyrir.

„Þeir gerðu vel í vörninni og við vorum klaufar“

Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness, var svekktur eftir tap kvöldsinsVísir/Anton

Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness, var svekktur eftir fyrsta tap tímabilsins gegn Grindavík á heimavelli.

„Þeir gerðu vel í vörninni og við vorum klaufar. Mér fannst leikurinn að miklu leyti spilaður á þeirra forsendum þó við náðum tökum inn á milli. Mér fannst þeir stýra þessum leik meira í kvöld,“ sagði Kjartan Atli og hélt áfram.

„Þeir voru grimmir út um allt gólf. Þrátt fyrir að við höfðum unnið frákastabaráttuna þá voru þeir að stíga hátt upp á völlinn og stela mikið af boltum. Við vorum með tuttugu tapaða bolta og þar liggur munurinn.“

Kjartan Atli útskýrði hvers vegna hann hafi ekki tekið leikhlé í stöðunni 70-77 þegar 46 sekúndur voru eftir heldur lét hann sína menn fara í sókn sem fór illa og tók leikhlé eftir að hans menn fóru að brjóta á Grindvíkingum.

„Við áttum eitt leikhlé eftir og urðum að eiga það til að færa boltann yfir undir lokin. Hefði ég tekið leikhlé þarna og svo ekki átt leikhlé undir lokin og við fastir þá hefðu það verið mistök. Við vorum búnir að fara yfir það sem við ætluðum að gera og við höldum bara áfram með það,“ sagði Kjartan Atli að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira