Fótbolti

Potter annt um Sví­þjóð og vill taka við lands­liðinu

Sindri Sverrisson skrifar
Graham Potter náði stórkostlegum árangri þegar hann starfaði í Svíþjóð sem þjálfari Östersund.
Graham Potter náði stórkostlegum árangri þegar hann starfaði í Svíþjóð sem þjálfari Östersund. Getty/Kevin Hodgson

Eftir að Jon Dahl Tomasson var rekinn í dag eru Svíar í leit að nýjum þjálfara karlalandsliðsins í fótbolta. Einn af þeim sem hafa áhuga á starfinu er Graham Potter, fyrrverandi stjóri West Ham, Chelsea og Brighton.

Potter hefur mikinn áhuga á starfinu, öfugt við Lars Lagerbäck sem þegar hefur útilokað að snúa aftur í landsliðsþjálfarastarfið.

Potter, sem er fimmtugur, vakti fyrst athygli sem þjálfari þegar hann stýrði Östersund. Hann tók við liðinu í sænsku D-deildinni en kom því upp í úrvalsdeild og í sjálfa Evrópudeildina. Það opnaði möguleika fyrir hann á Englandi þar sem hann tók við Swansea og svo í kjölfarið Brighton, Chelsea og nú síðast West Ham.

Potter var aðeins í níu mánuði í starfi hjá West Ham þar til hann var rekinn í lok síðasta mánaðar en í viðtali við Fotbollskanalen segist hann hafa mikinn áhuga á að taka við sænska landsliðinu sem í gær tapaði í annað sinn á rúmum mánuði fyrir Kósovó.

„Ég var bara að heyra fréttirnar [um Jon Dahl Tomasson]. Það var leitt að heyra, klárlega. Fyrir sænskan fótbolta og fyrir JDT,“ sagði Potter.

„En já, ég er raunar í Svíþjóð núna, í húsinu mínu í Svíþjóð. Ég er á milli starfa og var að hætta í ensku úrvalsdeildinni. Ég er opinn fyrir öllu, eiginlega, þar sem ég tel að ég geti orðið að gagni. Það væri æðislegt að stýra sænska landsliðinu,“ sagði Potter, greinilega spenntur.

„Ég ber tilfinningar til Svíþjóðar. Ég elska landið og ég elska sænskan fótbolta. Ég hef mikið að þakka fyrir gagnvart sænskum fótbolta. Svo já, þetta væri stórkostlegur möguleiki fyrir mig, klárlega,“ sagði Potter en kvaðst ekki hafa rætt við sænska knattspyrnusambandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×