Fótbolti

Höjlund sjóð­heitur og Danir færðust nær HM

Sindri Sverrisson skrifar
Rasmus Höjlund og félagar í danska landsliðinu stigu ekki feilspor í Ungverjalandi í kvöld, í 6-0 sigri gegn Hvít-Rússum sem ekki mega spila sína heimaleiki í Hvíta-Rússlandi vegna stríðsins í Úkraínu.
Rasmus Höjlund og félagar í danska landsliðinu stigu ekki feilspor í Ungverjalandi í kvöld, í 6-0 sigri gegn Hvít-Rússum sem ekki mega spila sína heimaleiki í Hvíta-Rússlandi vegna stríðsins í Úkraínu. EPA/BO AMSTRUP

Danmörk átti ekki í vandræðum með að leggja Hvíta-Rússland að velli í undankeppni HM í fótbolta í kvöld, 6-0. Átta leikir fóru fram í undankeppninni í Evrópu í dag.

Rasmus Höjlund hefur skorað þrjú mörk í síðustu tveimur leikjum með Napoli og hann var áfram heitur með Dönum í kvöld þegar hann skoraði tvö mörk í fyrri hálfleiknum.

Fyrrverandi liðsfélagi Höjlund hjá Manchester United, Patrick Dorgu, skoraði einnig í fyrri hálfleiknum eftir að Victor Froholdt hafði skorað fyrsta mark leiksins. Anders Dreyer skoraði tvö mörk í seinni hálfleiknum.

Skotland vann dýrmætan 3-1 sigur gegn Grikklandi í sama riðli, þrátt fyrir að hafa lent undir á 62. mínútu. Danir og Skotar eru því með sjö stig nú þegar undankeppnin er hálfnuð en Grikkir þrjú stig og Hvít-Rússar án stiga. Efsta liðið kemst beint á HM en liðið í 2. sæti fer í umspil.

Króatar á toppnum en Færeyjar unnu frábæran sigur

Í L-riðli eru Króatar komnir í góð mál eftir markalaust jafntefli gegn Tékklandi á útivelli. Færeyjar unnu frábæran 4-0 sigur gegn Svartfjallalandi í sama riðli. Króatar og Tékkar berjast á toppnum með 13 stig hvort lið en Króatar eiga núna þrjá leiki eftir en Tékkar aðeins tvo. Færeyjar eru með níu stig og eiga tvo leiki eftir.

Tíu mörk hjá Austurríki

Í H-riðli er Austurríki efst eftir 10-0 risasigur gegn San Marínó, þar sem Marko Arnautovic skoraði fernu. Kýpur og Bosnía gerðu 2-2 jafntefli og er Bosnía eina liðið sem veitir Austurríki keppni um efsta sætið. Austurríki er með 15 stig og á þrjá leiki eftir en Bosnía er með 13 stig og á aðeins tvo leiki eftir.

Gakpo og Reijnders á skotskónum

Í G-riðli skoraði Liverpool-maðurinn Cody Gakpo tvö mörk og City-maðurinn Tijjani Reijnders eitt, í 4-0 útisigri gegn Möltu. Finnland vann svo Litháen 2-1 á heimavelli. Holland er efst með 13 stig eftir 5 leiki, þremur stigum á undan Póllandi og Finnlandi en Finnar eru núna búnir með 6 leiki og eiga því bara tvo leiki eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×