Menning

László Krasznahorkai hlýtur bók­mennta­verð­laun Nóbels

Magnús Jochum Pálsson skrifar
László Krasznahorkai er þekktur fyrir krefjandi skáldsögur sínar sem hafa margar verið aðlagaðar að skjánum.
László Krasznahorkai er þekktur fyrir krefjandi skáldsögur sínar sem hafa margar verið aðlagaðar að skjánum. Getty

Ungverski rithöfundurinn og handritshöfundurinn László Krasznahorkai hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels í ár.

Sænska akademían greindi frá þessu á fréttamannafundi sem hófst klukkan 11, en Nóbelsverðlaunin verða formlega afhent í Stokkhólmi þann 10. desember.

Í rökstuðningi akademíunnar segir að Krasznahorkai hljóti verðlaunin fyrir „sannfærandi höfundarverk, sem í miðjum spádómshryllingi, ítrekar mátt listarinnar.“

László Krasznahorkai er fæddur 5. janúar 1954 og er þekktur fyrir krefjandi póstmódernískar skáldsögur sínar. Hann hóf rithöfundarferil sinn með skáldsögunni Satantango árið 1985 og hefur síðan þá gefið út fjölda skáldsagna, nóvella og nokkur smásagnasöfn. Hann hlaut Alþjóðlegu Booker-verðlaunin árið 2015 og hefur lengi verið orðaður við nóbelsverðlaunin.

Krasznahorkai er einnig handritshöfundur og hefur unnið náið með ungverska leikstjóranum Béla Tarr gegnum tíðina. Þar hefur hann bæði skrifað frumsamin handrit og aðlagað bækur sínar að skjánum, samanber Satantango (1994) sem er sjö klukkutíma löng og Werckmeister harmóniák (2000).

Suður-kóreski rithöfundurinn Han Kang hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum á síðasta ári. Skáldsaga Kang Grænmetisætan, frá árinu 2007, var gefin út í íslenskri þýðingu Ingunnar Snædal árið 2017 og var Han Kang gestur Bókmenntahátíðar Reykjavíkur sama ár. Árið áður hlaut hinn norski Jon Fosse verðlaunin.


Tengdar fréttir

Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels

Suður kóreski rithöfundurinn Han Kang hlaut nóbelsverðlaunin í bókmenntum þetta árið. Verk eftir hana hefur komið út á íslensku, en hún hefur einnig komið hingað til lands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.