Enski boltinn

„Á endanum fengum við á okkur mark í blá­lokin“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Slot ræðir við Farai Hallam, fjórða dómara leiksins.
Slot ræðir við Farai Hallam, fjórða dómara leiksins. EPA/VINCE MIGNOTT

Arne Slot, þjálfari Liverpool, sagði lið sitt hafa átt meira skilið úr leik þess gegn Chelsea á Stamford Bridge á laugardag. Bláliðar skoruðu í blálokin og sáu þar með til þessa að Liverpool hafi tapað þremur leikjum í röð.

„Fannst þetta vera leikur tveggja góðra liða. Það var óheppilegt fyrir okkur að eina færið sem þeir fengu í fyrri hálfleik endaði í samskeytunum. Við sköpuðum þrjú opin marktækifæri en mér leið eins og leikurinn væri í járnum.“

„Við byrjuðum vel í síðari hálfleik, það kom ekki á óvart þegar við jöfnuðum metin. Síðasti stundarfjórðungurinn var teiganna á milli. Bæði lið fengu færi til að vinna leikinn. Á endanum fengum við á okkur mark í blálokin.“

Liverpool hefur tapað þremur leikjum í röð.

„Við töpuðum einnig á Stamford Bridge á síðustu leiktíð. Við vorum nálægt því að ná í úrslit. Eins og ég hef sagt, á móti Galatasaray fengum við einn á einn færi og svo fá þeir vítaspyrnu. Við fengum á okkur mark í uppbótar-uppbótartíma gegn Crystal Palace. Svo í dag skora þeir þegar það hefði getað komið mark sitthvoru megin.“

Um breytingar á vörninni.

„Oftast nær skipti ég bakvörðunum því þeir eru á gulu spjaldi og maður veltir fyrir sér hvort það sé sniðugt að halda þeim á vellinum. Við þurfum á Florian Wirtz að halda í dag og Milos Kerkez varð þreyttari og þreyttari. Hann spilaði 90 mínútur í tveimur leikjum og nú þriðji leikurinn, hann er ekki vanur því. Maður fann og sá það, að það varð erfiðara og erfiðara fyrir hann að halda áfram. Það var mikil ógn af vængmönnunum þeirra.“

„Ibrahima Konaté fann til í lærinu, þá fara viðvörunarbjöllur af stað. Ef leikurinn hefði haldið áfram á þennan veg hefði ég beðið með skiptinguna en ég vildi ekki taka áhættuna. Það var ekki tilviljun að þegar við færðum Ryan Gravenberch þá komumst við inn í leikinn.“

Konaté fór af velli og Gravenberch fór í miðvörðinn.EPA/ADAM VAUGHAN

„Við vorum betri aðilinn en síðustu 10-15 mínúturnar var þetta endanna á milli og bæði lið hefðu getað skorað. Bæði lið komust margoft að vítateigslínunni. Þetta féll ekki með okkur á þeim augnablikum og við þurfum að leggja harðar að okkur. Að því sögðu, Chelsea og Palace á útivelli, þetta eru lið sem spyrja margra spurninga,“ sagði Slot að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×