Innlent

Við­reisn býður fram undir eigin merkjum í Ár­borg

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Horft frá Selfossi, sem er í Sveitarfélaginu Árborg, yfir í Flóahrepp.
Horft frá Selfossi, sem er í Sveitarfélaginu Árborg, yfir í Flóahrepp. Vísir/Vilhelm

Viðreisn býður í fyrsta sinn fram í eigin nafni í Árborg í næstu sveitarstjórnarkosningum. Viðreisnarmenn hafa hingað til boðið fram með Áfram Árborg. Formaður Viðreisnar í Árnessýslu segir flokkinn tilbúinn að taka næsta skref.

Fram kemur í tilkynningu frá Viðreisn að ákvörðunin hafi verið formlega samþykkt á félagsfundi Viðreisnar í Árnessýslu 29. september síðastliðinn. Ákvörðunin marki tímamót í þátttöku flokksins í bæjarmálum sveitarfélagsins og undirstriki vilja til að byggja upp sterkt og traust framboð.

Uppstillingarnefnd verður kosin á næsta félagsfundi, að því er fram kemur í tilkynningunni, og undirbúningur þegar hafinn. Lögð verði áhersla á frjálslynda og ábyrga stjórnmálastefnu með skýra framtíðarsýn fyrir samfélagið í Árborg.

„Ég er mjög spenntur fyrir þessu næsta verkefni Viðreisnar í Árborg. Við höfum undanfarin ár tekið þátt í bæjarmálunum með Áfram Árborg, þar með talið í núverandi meirihluta. En nú er kominn tími til að bjóða fram sterkan lista í nafni Viðreisnar og halda áfram að byggja upp gott samfélag með áherslu á þjónustu við fjölskyldufólk og alla bæjarbúa,“ segir Axel Sigurðsson, formaður Viðreisnar í Árnessýslu og varabæjarfulltrúi í Árborg.

„Viðreisn er vel undirbúin og staðráðin í að leiða öflugt og framsækið framboð til sveitarstjórnarkosninga. Með skýra sýn, traustu baklandi og reynslu af þátttöku í bæjarmálum er flokkurinn tilbúinn að taka næsta skref og vinna að farsælli framtíð fyrir Árborg."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×