Skoðun

Tími til kominn að styðja öll fram­úr­skarandi ung­menni

Karólína Helga Símonardóttir skrifar

Það hefur lengi verið hefð í sveitarfélögum á Íslandi að styðja íþróttafólk til æfinga og keppni, bæði hér heima og erlendis. Sú hefð hefur skilað miklu t.d. styrkt íþróttalíf, aukið samstöðu og gefið ungu fólki tækifæri til að blómstra. En nú er tími til kominn að stíga næsta skref. Hæfileikar ungs fólks takmarkast ekki við íþróttir.

Viðreisn í Hafnarfirði hefur lagt fram tillögu í Fræðsluráði um að stofna sérstakan sjóð sem styður framúrskarandi ungmenni í öllum greinum tómstundastarfs. Markmið sjóðsins er að veita fjárhagslegan styrk til ungs fólks með lögheimili í Hafnarfirði sem leggur hart að sér í listum, skapandi greinum, nýsköpun eða öðrum vettvangi - ekki bara í íþróttum.

Með slíku framtaki myndum við jafna leikinn. Því miður hafa mörg ungmenni sem hafa náð langt í listum eða öðrum greinum ekki notið sama stuðnings eða viðurkenningar og jafnaldrar þeirra í íþróttum. Með sjóðnum yrði loksins viðurkennt að samfélagið metur jafnt fjölbreytta hæfileika og afreksíþróttir.

Samfélagið stendur sterkara þegar við leggjum rækt við ólíkar leiðir til tjáningar og sköpunar. Börn og ungmenni sem fá hvatningu og raunveruleg tækifæri, óháð því hvort þau velja sér sviðsljós leiklistarinnar, strengina í hljóðfærum eða knattspyrnuvöllinn, eru líklegri til að fylgja draumum sínum, efla sjálfstraust sitt og gefa samfélaginu afrakstur sem við öll njótum.

Þetta er ekki spurning um annaðhvort íþróttir eða listir. Þetta er spurning um jafnræði. Við eigum að standa saman í því að styðja öll ungmenni og gefa þeim byr undir báða vængi.

Höfundur er varabæjarfulltrúi Viðreisnar í Hafnarfirði og situr í Fræðsluráði Hafnarfjarðar.




Skoðun

Skoðun

Mega einhverf hverfa?

Ármann Pálsson,Björg Torfadóttir,Sigrún Ósk,Sigurjón Már,Halldóra Hafsteins,Guðlaug Svala Kristjánsdóttir,Mamiko Dís Ragnarsdóttir skrifar

Sjá meira


×