Innlent

Fyrrum með­ferðar­heimili sett á sölu

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Um er að ræða tvö mannvirki á 3,5 hektara lóð.
Um er að ræða tvö mannvirki á 3,5 hektara lóð. Framkvæmdasýslan

Geldingalækur á Rangárvöllum, þar sem starfsemi meðferðarheimilisins Lækjarbakka fór áður fram, hefur verið sett á sölu. Starfseminni var hætt í húsnæðinu eftir að mygla fannst þar.

Um er að ræða 592 fermetra húsnæði á 3,5 hektara leigulóð í um tíu mínútna akstursfjarlægð frá Hellu. Á lóðinni er einnig um 264 fermetra fjárhús sem var byggt árið 1950. Ásett verð er 159 milljónir króna.

Meðferðarheimilið Lækjarbakki var rekið þar um áratugaskeið en mygla fannst í húsnæðinu vorið 2024. Heimilinu var því lokað þar til annað húsnæði fannst fyrir starfsemina.

Haustið 2024 barst tilkynning um að flytja ætti starfsemina í Miðgarð í Gunnarsholti á Rangárvöllum um leið og nauðsynlegum framkvæmdum þar væri lokið. Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu, sagði í samtali við Mbl í ágúst síðastliðnum að til stæði að klára framkvæmdirnar í lok ársins 2025 eða byrjun ársins 2026.

Fyrr í september var greint frá að sextíu þúsund fermetrar í eigu ríkisins standa nú tómir, fjórðungur þeirra vegna staðfestra tilvika af raka og myglu. Meðal tillagna hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar er að breyta fermetranýtingu stofnana ríkisins.

Sjá nánar: Tæpir sextíu þúsund fermetrar í eigu ríkisins standa tómir

Stórt fjárhús er einnig á lóðinni.Framkvæmdasýslan



Fleiri fréttir

Sjá meira


×