Fótbolti

Mourin­ho knúsaði gamla vinnu­félaga en er rauður í kvöld

Sindri Sverrisson skrifar
José Mourinho faðmaði þessa konu sem hann þekkti vel frá því þegar þau voru bæði starfsmenn á Brúnni.
José Mourinho faðmaði þessa konu sem hann þekkti vel frá því þegar þau voru bæði starfsmenn á Brúnni. Getty/Alex Broadway

José Mourinho var afar vel tekið þegar hann sneri aftur á Stamford Bridge í gær, á blaðamannafund fyrir leik Chelsea og Benfica í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í kvöld. „Ég verð alltaf blár,“ sagði Mourinho.

Eftir að Mourinho var rekinn frá Fenerbahce í Tyrklandi fékk hann strax nýtt tækifæri þegar hans gamla félag Benfica, þar sem Portúgalinn hóf stjóraferilinn um aldamótin, hafði samband.

Aðeins tólf dagar eru síðan Mourinho tók við Benfica og nú er hann mættur á sinn gamla heimavöll með liðið í Meistaradeildinni, í leik sem hefst klukkan 19 á Sýn Sport 3. Fylgst er með öllum leikjum kvöldsins í Meistaradeildarmessunni á Sýn Sport.

Óhætt er að segja að það hafi orðið fagnaðarfundir þegar Mourinho kom á blaðamannafundinn í gær, þar sem hann sást knúsa gamalt samstarfsfólk innilega. Vissulega er langt um liðið síðan hann stýrði Chelsea, árin 2004-07 og svo aftur 2013-15, en eftir standa þrír Englandsmeistaratitlar, þrír deildabikarmeistaratitlar og einn bikarmeistaratitill.

Mourinho var á fundinum í gær spurður á portúgölsku út í myndirnar af honum í salnum, eftir Englandsmeistaratitlana þrjá, og svaraði þá: 

„Ég er ekki blár lengur, ég er rauður núna og vil vinna,“ svaraði Mourinho en þegar leið á fundinn kom þó betur í ljós hve annt honum er um tímann hjá Chelsea:

„Ég verð alltaf blár. Ég er hluti af þeirra sögu. Þau eru hluti af minni sögu. Ég hjálpaði þeim að verða að stærra Chelsea. Og þeir hjálpuðu mér að verða stærri José. Þegar ég segi að ég sé ekki blár er ég bara að tala um starfið sem ég á fyrir höndum [í kvöld],“ sagði Mourinho sem samkvæmt BBC lagði sig allan fram við að ræða við fólkið sem hann þekkti á Brúnni og gaf sér góðan tíma til þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×