Innlent

Stefnir í lokað þing­hald að beiðni mæðgnanna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Konan er ákærð fyrir manndráp og tilraun til manndráps á heimili fjölskyldunnar við Súlunes í Garðabæ.
Konan er ákærð fyrir manndráp og tilraun til manndráps á heimili fjölskyldunnar við Súlunes í Garðabæ.

Aðalmeðferð í Súlunesmálinu svokallaða fer fram við Héraðsdóm Reykjaness mánu- og þriðjudaginn 3. og 4. nóvember. Dómurinn verður fjölskipaður og þinghald í málinu lokað að beiðni ákærðu og móður hennar, brotaþola í málinu.

Margrét Halla Hansdóttir Löf er ákærð fyrir að hafa orðið föður sínum að bana og gera tilraun til að bana móður sinni á heimili fjölskyldunnar í Súlunesi í Garðabæ í apríl síðastliðnum. Margrét Halla neitar sök.

Karl Ingi Vilbergsson, varahéraðssaksóknari og saksóknari í málinu, segir öll gögn í málinu liggja fyrir. Reiknað sé með fjölskipuðum dómi þar sem tveir embættisdómarar og einn sérfræðingur úr læknisfræði dæmi í málinu. Verið sé að leita að einstaklingi í hlutverkið.

Hann segist reikna með því að aðalmeðferðin fari fram fyrir luktum dyrum að beiðni verjanda Margrétar Höllu og sömuleiðis réttargæslumanns móður hennar. Málið þykir afar viðkvæmt en Margrét Halla er eina barn móður sinnar.

Eins og áður hefur verið greint frá er Margrét grunuð um að hafa í aðdraganda andláts föður hennar beitt foreldra sína ofbeldi í um tíu klukkustundir. Þá er hún sökuð um að hafa beitt þau margvíslegu ofbeldi mánuðina á undan.

Foreldrar hennar höfðu endurtekið leitað á sjúkrahús og til læknis með áverka en faðir hennar var orðinn áttræður þegar hann lést. Hann hafði síðast legið inni á sjúkrahúsi tveimur dögum áður en hann féll frá vegna meints ofbeldis Margrétar.

Fari allt samkvæmt áætlun og aðalmeðferð lýkur í byrjun nóvember má reikna með dómi í kringum mánaðamótin nóvember desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×