Fótbolti

„Fannst við klár­lega með miklu fleiri og betri færi“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Túfa hvetur sína menn áfram á hliðarlínunni í leik kvöldsins.
Túfa hvetur sína menn áfram á hliðarlínunni í leik kvöldsins. Vísir/Diego

Srdjan Tufegdzic, þjálfari Vals, segir að sínir menn hafi átt skilið að fá í það minnsta stig út úr leik liðsins gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks í kvöld.

Valsmenn þurftu að grafa djúpt til að sækja stigið, en jöfnunarmark liðsins skoraði Tryggvi Hrafn Haraldsson úr vítaspyrnu þegar komið var tæpar átta mínútur fram yfir venjulegan leiktíma.

„Já, svona heilt yfir,“ sagði Túfa í leikslok þegar hann var spurður að því hvort úrslitin hafi verið sanngjörn.

„Fyrst að við vorum svona lengi undir og náðum að jafna í uppbótartíma þá er ég ánægður með stigið og mér fannst þetta sanngjarnt jafntefli.“

Hann segir þó að ef annað hvort liðið hafi átt að vinna leikinn þá hafi það verið Valsmenn.

„En ef ég horfi heilt yfir leikinn þá hefur vindurinn oft sitt að segja og bæði lið voru sterkari með vindi. Breiðablik í fyrri hálfleik og við í seinni. En mér fannst við klárlega með miklu fleiri og betri færi í leiknum en Blikarnir,“ sagði Túfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×