Viðskipti innlent

Meiri­hluti í SA and­vígur ESB aðild

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir mikilvægt að tekin sé fagleg umræða um kostnað og ávinning aðildar að ESB fyrir atvinnulífið.
Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir mikilvægt að tekin sé fagleg umræða um kostnað og ávinning aðildar að ESB fyrir atvinnulífið. Vísir/Einar

Meirihluti félagsmanna í Samtökum atvinnulífsins er andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þetta kemur fram í nýrri könnun Gallup fyrir samtökin, að því er segir í tilkynningu frá samtökunum.

Þar segir að niðurstöðurnar séu hluti af stærri könnun sem lögð var fyrir félagsmenn og tekur á fjölmörgum þáttum sem snertir rekstur fyrirtækja á Íslandi. Frekari niðurstöður verði kynntar á Ársfundi atvinnulífsins sem fer fram 2. október. Líkt og fram hefur komið hyggst ríkisstjórnin halda þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður við ESB um aðild, fyrir árið 2027.

Samkvæmt könnun Gallup sem gerð var fyrir SA eru 42 prósent félagsmanna mjög andvíg aðild, fjórtán prósent frekar andvíg á meðan tólf prósent eru mjög hlynnt og fimmtán prósent frekar hlynnt. Andstaða við aðild mælist meiri á landsbyggðinni.

71 prósent félagsmanna SA á landsbyggðinni eru andvíg aðild að ESB gegn 47 prósent félagsmanna á höfuðborgarsvæðinu. Stuðningur fyrirtækja við aðild er 33 prósent á höfuðborgarsvæðinu en sextán prósent á landsbyggðinni.

„Það er verið að setja aðild Íslands að Evrópusambandinu á dagskrá og það er mikilvægt að við tökum faglega umræðu um kostnað og ávinning aðildar fyrir atvinnulífið,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA í tilkynningu samtakanna.

„Þessar niðurstöður eru í samræmi við það sem við upplifum í samtölum við félagsmenn, Skoðanir eru skiptar innan atvinnulífsins en meirihluti okkar félagsmanna telur hagsmunum íslensks atvinnulífs betur borgið utan ESB.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×