Fótbolti

Ís­land stendur í stað þrátt fyrir stór­sigur

Sindri Sverrisson skrifar
Ísland vann 5-0 stórsigur gegn Aserbaísjan í síðasta mánuði en það kom liðinu ekki upp heimslistann.
Ísland vann 5-0 stórsigur gegn Aserbaísjan í síðasta mánuði en það kom liðinu ekki upp heimslistann. vísir/Anton

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta fékk vissulega plús í kladdann eftir síðustu tvo landsleiki en situr þó áfram í 74. sæti heimslistans sem gefinn var út í morgun.

Ísland vann 5-0 stórsigur gegn Aserbaísjan fyrr í þessum mánuði og tapaði svo afar naumlega gegn Frökkum á útivelli, 2-1. Frakkland er nú næstefst á listanum, á eftir Spáni, því Argentína fór niður um tvö sæti. Aserar eru hins vegar í 124. sæti og fara niður um tvö sæti, eftir tapið gegn Íslandi og 1-1 jafntefli við Úkraínu.

Næstu leikir Íslands eru á Laugardalsvelli 10. og 13. október, þegar undankeppni HM heldur áfram með leikjum við Úkraínu og Frakkland. Úkraína er nú í 28. sæti heimslistans, tveimur sætum neðar en áður eftir 2-0 tapið gegn Frökkum á heimavelli og 1-1 jafnteflið við Aserbaísjan á útivelli.

Ísland er því að fara að mæta liðum sem eru 46 og 72 sætum ofar á heimslista, í komandi leikjum á Laugardalsvelli.

Spánn á toppnum hjá báðum kynjum

Eins og fyrr segir eru Spánverjar nú komnir aftur á topp heimslistans, eftir að hafa síðast verið þar árið 2014.

Spánverjar eru því á toppi heimslistans bæði hjá körlum og konum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×