Fótbolti

Partey lýsti sig sak­lausan af á­kærum um nauðgun

Sindri Sverrisson skrifar
Thomas Partey spilaði gegn Tottenham í gærkvöld og má spila fótbolta fram að réttarhöldunum á næsta ári.
Thomas Partey spilaði gegn Tottenham í gærkvöld og má spila fótbolta fram að réttarhöldunum á næsta ári. Getty/Marc Atkins

Degi eftir að hafa spilað með Villarreal gegn Tottenham í Lundúnum í gærkvöld, í Meistaradeild Evrópu í fótbolta, mætti Thomas Partey í réttarsal í ensku höfuðborginni og lýsti sig saklausan af ákærum um  nauðgun.

Partey hefur verið ákærður fyrir fimm nauðganir og eitt kynferðisbrot sem áttu að hafa átt sér stað árin 2021 og 2022. Brotin beindust gegn þremur konum.

Á þessum árum var þessi 32 ára gamli leikmaður á mála hjá Arsenal og reglulega að spila í ensku úrvalsdeildinni.

Thomas Partey mætti í réttarsal í dag og hafnaði öllum ásökunum.Getty/Ben Whitley

Partey var ákærður fjórum dögum eftir að hann yfirgaf Arsenal í sumar, þegar samningur hans við félagið rann út í lok júní. Hann gekk svo í raðir Villarreal á Spáni.

Eftir að hafa lýst sig saklausan í dag var Partey látinn laus gegn tryggingu fram að réttarhöldunum sem eiga að hefjast 2. nóvember á næsta ári, samkvæmt frétt BBC. Fram að þeim er honum frjálst að spila fótbolta en honum er þó skylt að láta lögreglu vita af öllum ferðalögum á milli landa með sólarhrings fyrirvara, auk þess sem hann má ekki hafa samband við hina meintu þolendur.

Partey kom inn á sem varamaður á 78. mínútu gegn Tottenham í gærkvöld, í 1-0 tapi Villarreal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×