Innlent

Þór­dís Lóa ætlar ekki fram

Atli Ísleifsson skrifar
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir hefur átt sæti í borgarstjórn Reykjavíkur frá árinu 2018.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir hefur átt sæti í borgarstjórn Reykjavíkur frá árinu 2018. Vísir/Vilhelm

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í borgarstjórn Reykjavíkur, hyggst ekki bjóða sig fram í næstu borgarstjórnarkosningum sem fram fara í maí á næsta ári. 

Þórdís Lóa greinir frá þessu í færslu á Facebook í morgun. „8 ár er nægur tími - nú er komin tími á breytingar hjá mér,“ segir borgarfulltrúinn sem hefur átt sæti í borgarstjórn Reykjavíkur frá árinu 2018. 

Hún segist þar hafa ákveðið að bjóða ekki fram krafta sína í komandi borgarstjórnarkosningum. 

„Ég hef mikla löngun til að takast aftur á við spennandi verkefni í atvinnulífinu og tel að rétti tíminn til þess sé eftir sveitarstjórnarkosningar næsta vor, eftir að hafa þá starfað sem borgarfulltrúi í 8 ár.

Ég er afskaplega stolt af starfi mínu sem oddviti Viðreisnar í borginni og verkefnin sem við höfum tekist á við í samstarfi við frábært fólk úr öllum flokkum hafa verið skemmtileg, krefjandi og gefandi.

Ég hef alltaf lifað eftir þeirri hugsjón að það sé hollt að breyta til á 8-10 ára fresti og vera tilbúin til að takast á við nýjar áskoranir. Það heldur manni á tánum, gefur nýja sýn og opnar ný tækifæri. Ég skil sátt við borgarstjórn og afskaplega stolt af þeim verkum sem við í Viðreisn höfum komið áfram til hagsbóta fyrir borgarbúa.

Það er rétt að tilkynna þessa ákvörðun núna á þessum tímapunkti til þess að félagar mínir í Viðreisn geti hafið undirbúning að því að móta nýjan lista með nýju fólki í tæka tíð fyrir kosningarnar. Ég mun áfram vera til aðstoðar eins og þörf er á,“ segir Þórdís Lóa. 

Eftir kosningarnar 2018 var Viðreisn í meirihluta borgarstjórnar og svo aftur eftir kosningarnar 2022. Eftir að Framsóknarflokkurinn ákvað að slíta meirihlutasamstarfinu í ársbyrjun var myndaður nýr meirihluti án aðkomu Viðreisnar. Flokkurinn hefur því verið í minnihluta síðustu mánuði. Á tíma sínum í borgarstjórn hefur Þórdís Lóa verið formaður borgarráðs í fjögur ár og á tímum starfandi borgarstjóri. Þá var hún forseti borgarstjórnar í þrjú ár.

Hefði viljað meiri framþróun í ábyrgari fjármálum og sjálfbærum rekstri

Í færslunni rekur hún hvaða verkefnum hún hefur komið að á tíma sínum í borgarstjórn. Þá segist hún stundum vera spurð að því hvað hún hefði viljað gera meira af. 

„Ég hef ekkert legið á skoðunum mínum hvað það varðar. Þar er helst að telja upp verkefni sem snúa að rekstri, fjármálum og stjórnun borgarinnar. Ég hefði viljað sjá meiri framþróun í ábyrgari fjármálum og sjálfbærum rekstri A hluta, einfaldari umgjörð um eignir borgarinnar og minni pólitík í stjórnum innviðafyrirtækja. Ég hefði líka viljað ganga lengra í því að losa borgina undan rekstri sem hún þarf ekki að sinna, s.s. eins og rekstri malbikunarstöðvarinnar. Þetta verða áskoranir fyrir næstu forystu að takast á við.

Ég er stolt af því að Viðreisn í Reykjavík hefur undir minni forystu unnið að mörgum góðum verkefnun og samkvæmt nýjustu könnunum nú þrefaldað fylgi sitt . Það er skýr vísbending um að frjálslynd hægri miðjustefna með áherslu á ábyrgð í fjármálum en framsækni í velferð og samfélagsmálum á erindi og hefur náð eyrum borgarbúa.

Ég tek þessa ákvörðun nú með góðum fyrirvara og tilkynni hana nú fyrir landsþing flokksins svo að Viðreisn geti hafið undirbúning af fullum krafti fyrir kosningarnar á næsta ári. Ég hef trú á að ný forysta muni leiða flokkinn áfram af krafti, það er sannarlega þörf fyrir Viðreisn í borgarstjórn.

Ég er óendanlega þakklát að hafa verið treyst fyrir því að vera oddviti Viðreisnar í Reykjavík í átta ár.

Nú tekur nýtt fólk við – og framtíðin er björt,“ segir Þórdís Lóa í færslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×