Zubimendi með tvö í frá­bærum sigri

Sindri Sverrisson skrifar
Martin Zubimendi fagnar frábæru fyrsta marki Arsenal í dag en hann skoraði tvö.
Martin Zubimendi fagnar frábæru fyrsta marki Arsenal í dag en hann skoraði tvö. Getty/Stuart MacFarlane

Arsenal vann frábæran 3-0 sigur gegn Nottingham Forest í fyrsta leiknum eftir landsleikjahlé í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Spánverjinn Martin Zubimendi skoraði tvö markanna með afar laglegum hætti.

Þetta var fyrsti leikur Forest undir stjórn Ange Postecoglou og óhætt er að segja að frumraunin hafi farið illa.

Zubimendi skoraði fyrsta mark leiksins með viðstöðulausu þrumuskoti utan teigs, eftir hálftíma leik, í kjölfarið á hornspyrnu. Stórkostleg afgreiðsla.

Eftir aðeins 46 sekúndur í seinni hálfleiknum bætti svo Viktor Gyökeres við marki þegar hann skilaði boltanum í netið af stuttu færi, eftir undirbúning Eberechi Eze sem var mættur í byrjunarliðið í sínum fyrsta heimaleik.

Forest ógnaði sáralítið í leiknum en Chris Wood komst þó nálægt því að minnka muninn þegar hann tók boltann með brjóstkassanum, í boga yfir David Raya sem tókst þó að verja með fingurgómunum í slána og út.

Gyökeres átti þrumuskot í stöng og Zubimendi skoraði svo seinna mark sitt með skalla eftir frábærlega útfærða aukaspyrnu. Leandro Trossard átti stoðsendinguna.

Arsenal er nú með níu stig eftir fjóra leiki en Forest er með fjögur stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira