Sport

Veðreiðafólk fer í verk­fall og mót­mælir við breska þingið

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Knaparnir munu ekki láta kyrrt liggja.
Knaparnir munu ekki láta kyrrt liggja. Alan Crowhurst/Getty Images

Knapar, þjálfarar og eigendur leggja niður svipur, beisli og tauma í dag, til að mótmæla fyrirhuguðum hækkunum á sköttum tengdum veðmálum við kappreiðar. Til stendur að hækka skattinn í sömu prósentu og gildir um allar aðrar tegundir af veðmálum.

Skatturinn við veðmálum á kappreiður stendur í dag í 15 prósentum en til stendur að hækka hann í 21 prósent, sem er sama álagning og á öðrum tegundum veðmála í Bretlandi, þar með talið í spilavítum og veðmálum á netinu.

Veðreiðasambandið í Bretlandi heldur því fram að við breytinguna myndi sambandið verða af 66 milljónum punda í tekjum og setja 2752 störf í hættu.

Breska ríkisstjórnin heldur því fram að breytingin myndi skapa um þrjá milljarða punda í tekjur fyrir ríkissjóð, sem myndi samstundis færa hálfa milljón barna yfir fátæktarmörkin.

Helstu rökin hjá veðreiðasambandinu, fyrir því að hækka skattinn ekki, eru þau að veðreiðar séu ekki eins og önnur tegund af veðmálum. Þær krefjist mikillar kunnáttu og þekkingar og séu ekki eins og hvert annað spil í slembilukku.

Kappreiðar eru vinsælar hjá bresku konungsfjölskyldunni, hér er Kamilla drottning á tali við Ryan Moore. Ian Forsyth/Getty Images

Þá séu veðreiðar einnig mikilvægur hluti af bresku samfélagi, sameiningartákn fyrir fólk, allt frá konungsfjölskyldunni til bænda og verkafólks.

Þrýst verður á þingmenn í Westminster að fella tillöguna, veðreiðasambandið hefur lagt niður störf í fyrsta sinn í sögunni og mun standa fyrir mótmælum sem það vill samt ekki kalla mótmæli.

„Þetta eru ekki skipulögð mótmæli, heldur tækifæri fyrir fólk að koma saman og láta sína skoðun í ljós við ráðherrana sem verða á svæðinu“ segir Brant Dunshea, forseti veðreiðasambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×