Fótbolti

„Vissi ekki að ég væri sá fyrsti“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Djed Spence er fyrsti músliminn sem spilar fyrir England.
Djed Spence er fyrsti músliminn sem spilar fyrir England. David Balogh - The FA/The FA via Getty Images

Djed Spence braut blað í sögu enska landsliðsins í gærkvöldi þegar hann kom inn af varamannabekknum í seinni hálfleik. Hann vissi hins vegar ekki að hann væri fyrsti músliminn til að spila fyrir landsliðið.

Hinum 25 ára gamla Spence, bakverði Tottenham í ensku úrvalsdeildinni, var skipt inn fyrir Reece James á 69. mínútu í 5-0 sigri Englands gegn Serbíu. 

„Þetta kom mér á óvart, ég vissi ekki að ég væri sá fyrsti, en það er mikil blessun“ sagði Spence eftir leik.

„Ég er stoltur af því að skrá nafn mitt á spjald sögunnar og vonandi get ég veitt krökkum um allan heim innblástur, að þau geti afrekað þetta líka.“

Spence er mjög trúaður og birtir reglulega eitthvað tengt múslimskri trú sinni á samfélagsmiðlum, en segir trúarbrögðin sjálf ekki skipta höfuðmáli.

„Hvaða trúfélagi sem þú fylgir, trúðu bara á Guð. Guð er sá besti, fyrir mig hefur hann allavega aldrei brugðist. Dagar eins og þessi eru sérstakir, þökk sé Guði.“

Sýnileiki Spence í sinni trúariðkun þykir jákvætt fordæmi fyrir aðra múslima á Englandi.

„Það er frábært að sjá hversu opinskátt hann iðkar trúnna og fagnar henni. Alla unga múslimska knattspyrnumenn hér í landi dreymir um að spila fyrir England. Ekki fyrir aðrar þjóðir eða þjóð foreldra þeirra, heldur fyrir England“ segir Yunus Lunat, sem situr í jafnréttisnefnd enska knattspyrnusambandsins, við breska ríkisútvarpið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×