Fótbolti

Arf­taki Ten Hag ekki stýrt félagsliði síðan 2019

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mættur í efstu deild Þýskalands.
Mættur í efstu deild Þýskalands. EPA/Mads Claus Rasmussen

Hinn danski Kasper Hjulmand hefur verið ráðinn þjálfari Bayer Leverkusen. Hann tekur við af Erik ten Hag sem var látinn fara eftir að hafa aðeins stýrt liðinu í tveimur deildarleikjum.

Ten Hag tók við starfinu eftir að Xabi Alonso fór til Real Madríd. Hollendingurinn virtist engan veginn finna sig og tók stjórn Leverkusen því þá ákvörðun að láta fyrrverandi þjálfara Manchester United fara þó tímabilið væri rétt nýhafið.

Það tók Leverkusen ekki langan tíma að finna arftaka arftakans en hinn 53 ára gamli Hjulmand hefur verið staðfestur sem nýr þjálfari félagsins. Athygli vekur að hann hefur ekki stýrt félagsliði frá árinu 2019 þegar hann stýrði Nordsjælland. Frá 2019-2024 var hann hins vegar þjálfari danska karlalandsliðsins.

Hjulmand skrifar undir samning til ársins 2027 og segir það heiður að vera orðinn þjálfari hjá jafn stóru félagi og raun ber vitni.

Hjulmand þekkir til í Þýskalandi eftir að hafa stýrt Mainz um stund tímabilið 2014-15. Fyrir utan það hefur hann aðeins þjálfað Lyngby og Nordsjælland í heimalandinu.

Leverkusen er með eitt stig að loknum tveimur umferðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×