Fótbolti

Ísak Berg­mann: Stoltur af þjóðinni í kvöld

Árni Jóhannsson skrifar
Ísak Bergmann var nálægt þrennunni en skot hans var vel varið.
Ísak Bergmann var nálægt þrennunni en skot hans var vel varið. Vísir / Anton Brink

Ísak Bergmann Jóhannesson var gripinn í viðtal strax eftir sigurinn gegn Aserbaísjan í kvöld. Hann skoraði tvö mörk í 5-0 sigri og var einn af betri mönnum vallarins. Ísland byrjar undankeppni HM ´26 eins vel og hægt er.

„Ég er fyrst og fremst stoltur af liðinu. Það er búið að tala dálítið mikið ótrúlega lengi en það sáu allir að við spiluðum ótrúlega vel. Á milli línanna og allt sem að nútíma fótbolti á að vera. Sýndum það í dag“, sagði Ísak þegar hann var spurður út í frammistöðuna í dag.

Ísland var þó lengi í gang. Hvað small í seinni hálfleik?

„Við erum leikmenn frá fullt af öðruvísi hugmyndafræði úti og við þurfum bara að spila okkur saman. Ég meina að allir sem hafi séð það í seinni hálfleik hvað það var gaman að spila þennan leik. Ég er ótrúlega stoltur af liðinu.“

Hvernig er að vera komin heim á Laugardalsvöll, fann liðið fyrir tólfta manninum í kvöld?

„Já ég er ótrúlega ánægður að sjá svona marga í stúkunni. Vonandi verða bara fleiri í október þegar það eru erfiðari leikir. Ótrúlega stoltur af þjóðinni í dag.“

Ísak var að sjálfsögðu ánægður með mörkin sín og sendi fingurkoss upp í stúkuna. Hver var móttakandinn?

„Ég sendi fingurkoss eftir bæði mörkin en kærastan mín Agnes Perla, var á klósettinu eftir hálfleikinn þannig að hún missti af fyrri kossinum“, sagði Ísak skælbrosandi áður en hann hljóp til að taka þátt í fagnaðarlátunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×