Hlutfall virðis á móti hagsveifluleiðréttum hagnaði (CAPE) fyrir Úrvalsvísitölu Nasdaq Iceland, OMXI15, stendur nú í 19,5 samanborið við 20,6 í júlí. Þetta er í fyrsta sinn frá desember 2017 sem CAPE hefur farið niður fyrir 20 og stendur nú undir sögulegu meðaltali vísitölunnar, sem er 21,0. Hefðbundið hlutfall virðis á móti hagnaði (P/E), sem byggir á tólf mánaða sögulegum raunhagnaði, mælist 14,4 í ágúst samanborið við 15,6 í júlí. Hefur P/E-hlutfallið ekki verið jafn lágt síðan í júní 2023.
Í stuttu máli má skilgreina CAPE sem mælikvarða á hversu mörg ár það tæki hagnað fyrirtækjanna í vísitölunni að greiða til baka upphaflega fjárfestingu í OMXI15. Lægra gildi CAPE – undir sögulegu meðaltali – getur bent til hóflegrar eða sanngjarnari verðlagningar á hlutabréfum.

Samsetningu Úrvalsvísitölunnar var breytt í júlí þegar Kauphöllin bætti við tveimur nýjum félögum í Úrvalsvísitöluna; fjármálafyrirtækinu Skaga og flutningafyrirtækinu Eimskip.
Á sama tíma og CAPE fyrir OMXI15 hefur lækkað stóð hlutfallið fyrir bandarísku hlutabréfavísitöluna S&P 500 í 37,9 í ágúst samkvæmt opinberum gögnum hagfræðingsins dr. Robert J. Shiller. Báðar mælingar gefa til kynna áframhald neikvæðs áhættuálags í arðsemiskröfu til hlutabréfa þar sem miðað er við ávöxtunarkröfur ríkisskuldabréfa til langs tíma. Ávöxtunarkrafa íslenskra óverðtryggðra ríkisskuldabréfa stóð í 7,18 prósentum þann 29. ágúst, á meðan verðbólguálag reyndist nær 3,4%. Til samanburðar eru meginvextir Seðlabanka Íslands 7,5 prósentur í kjölfar þess að Peningastefnunefnd bankans ákvarðaði vextina óbreytta síðastliðinn 20. ágúst.

Nýjustu verðbólgutölur sýna að vísitala neysluverðs hækkaði um 3,8 prósent á ársgrundvelli í ágúst, sem er hennar lægsta gildi síðan snemma árs 2021. Til samanburðar var ársverðbólga í Bandaríkjunum 2,7 prósent í júlí og ávöxtunarkrafa bandarískra óverðtryggðra ríkisskuldabréfa mældist um 3,9 prósent í lok ágúst. Þjóðhagsreikningar sem Hagstofa Íslands birti síðastliðinn föstudag gáfu til kynna að verg landsframleiðsla dróst saman um 1,9 prósent á öðrum fjórðungi 2025, sem er meiri samdráttur en opinberar spár gerðu ráð fyrir.
Höfundur er hagfræðingur.
Nánar um CAPE:
Frá árinu 2016 hefur hagfræðingurinn Brynjar Örn Ólafsson með aðstoð og gögnum frá Kóða og Nasdaq Iceland tekið að sér að reikna og birta mánaðarlega opinberlega tímaraðir fyrir svokallað CAPE (e. Cyclically Adjusted Price to Earnings) fyrir Úrvalsvísitöluna OMXI10 sem hliðstæðu við útreikninga Dr. Robert J. Shiller fyrir S&P 500 vísitöluna.
Hlutfallið sýnir virði Úrvalsvísitölunnar á móti hagsveifluleiðréttum hagnaði þeirra félaga sem mynda vísitöluna. Hefðbundið VH-hlutfall miðast við hagnað síðastliðinna tólf mánaða og í þeim tilfellum sem miklar breytingar verða á hagnaði getur reynst vandasamt að átta sig á réttmæti verðlagningar. Í tilfelli CAPE er notast við verðlagsleiðréttan sögulegan hagnað sem getur gefið vísbendingu um réttmæti verðlagningar á móti hagnaði í eðlilegu árferði.