Viðskipti innlent

Her­mann tekur við söluarmi Sam­herja

Árni Sæberg skrifar
Hermann Stefánsson er nýr forstjóri Ice Fresh Seafood.
Hermann Stefánsson er nýr forstjóri Ice Fresh Seafood. samherji.is/Hörður Geirsson

Hermann Stefánsson tók við sem framkvæmdastjóri Ice Fresh Seafood ehf. í júní þegar Gústaf Baldvinsson lét af störfum eftir að hafa st‎ýrt félaginu frá stofnun, árið 2007. Ice Fresh Seafood er sölu- og markaðsfyrirtæki Samherja.

Á vef Samherja er haft eftir Hermanni að slenskar sjávarafurðir séu seldar í harðri samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum. Til að ná settum markmiðum þurfi að vanda til verka á öllum stigum virðiskeðjunnar, enda sé samþætting hennar lykillinn að velgengni íslensks sjávarútvegs.

„Þetta er öflugt félag í alla staði, innviðir eru traustir og þéttir sem skiptir höfuðmáli til að ná árangri. Hérna starfar reynslumikið fólk með víðtæka reynslu af sölu sjávarafurða, flutningi og afhendingu, sem vinnur náið með starfsfólki í veiðum og vinnslu. Til að ná árangri þurfa allir að ganga í takt á öllum sviðum, sem á reyndar við um allan íslenskan sjávarútveg. Mér hefur verið afskaplega vel tekið og hef stundum á orði að mér finnist ég hafa starfað hérna í mörg ár, sem endurspeglar væntanlega að starfsemin er ekki bara vel skipulögð og lausnamiðuð í alla staði, heldur er starfsandinn einstakur.“ 

Þá segir að Hermann hafi víðtæka reynslu í stjórnun og hafi lengi starfað við sjávarútveg. Hann hafi verið útgerðarstjóri Borgeyjar á árunum 1995-1999, framleiðslustjóri hjá Skinney-Þinganesi 1999-2010, framkvæmdastjóri Iceland-Pelagic 2010-2018 og forstjóri ÍSAM 2018-2024.

Auk skrifstofa á Akureyri og í Reykjavík er Ice Fresh Seafood með söluskrifstofur í Englandi, Frakklandi, á Spáni og í Bandaríkjunum. Fyrirtækið selur afurðir til um fimmtíu þjóðlanda. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×