Erlent

Ástralir vísa sendi­herra Íran úr landi og loka sendi­ráðinu í Tehran

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Albanese var ómyrkur í máli á þinginu í morgun.
Albanese var ómyrkur í máli á þinginu í morgun. Getty/Hagen Hopkins

Stjórnvöld í Ástralíu hafa ákveðið að vísa sendiherra Íran í Canberra úr landi og loka sendiráði sínu í Tehran, eftir að öryggisyfirvöld komust að þeirri niðurstöðu að stjórnvöld í Íran hefðu staðið að baki að minnsta kosti tveimur árásum á samfélag gyðinga í landinu.

Frá þessu greindi forsætisráðherrann Anthony Albanese í morgun.

Forsætisráðherrann sagði Australian Security and Intelligence Organisation (Asio) hafa komist að þeirri niðurstöðu að stjórnvöld í Tehran hefðu staðið að árásum á Adass bænahúsið í Melbourne og Lewis´s Continental Kitchen í Sydney.

Mike Burgess, forstjóri Asio, sagði árásirnar hafa verið fyrirskipaðar af íranska hernum og skipulagðar í gegnum mörg lög af milliliðum í Ástralíu.

Yfirvöld hafa ákveðið að setja íranska herinn á lista yfir hryðjuverkasamtök en til þess þarf að breyta lögum.

Burgess sagði sendifulltrúa Íran í Ástralíu ekki grunaða um aðild að árásunum en sendiherrann Ahmad Sadeghi er ekki lengur velkominn í landinu.

Albanese sagði árásirnar hafa verið tilraun erlendra stjórnvalda til að skapa sundrung og grafa undan samstöðu. Hann sagði ákvarðanir um að vísa sendiherrum úr landi ekki vera teknar af léttúð.

Hér má finna ítarlega frétt Guardian um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×