Innlent

Jóhann tekur við af Gunnari hjá Lands­sam­bandi veiði­fé­laga

Atli Ísleifsson skrifar
Jóhann Helgi Stefánsson nýbúinn að landa einum vænum.
Jóhann Helgi Stefánsson nýbúinn að landa einum vænum.

Stjórn Landssambands veiðifélaga hefur ráðið Jóhann Helga Stefánsson í starf framkvæmdastjóra. Hann tekur við starfinu af Gunnari Erni Petersen 1. september næstkomandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Þar segir að Jóhann Helgi hafi frá unga aldri stundað og haft brennandi áhuga á stang- og skotveiði. 

„Hann var stjórnarmaður í Félagi ungra í stang- og skotveiði og hefur einnig tekið þátt í starfi NASF sem sjálfboðaliði. Hann þekkir því vel til ólíkra þátta veiðiheimsins.

Jóhann Helgi er umhverfis- og auðlindafræðingur að mennt og hefur undanfarin ár starfað hjá Landi og skógi (áður Landgræðslan), þar sem hann hefur komið að fjölbreyttum verkefnum á sviði endurheimt vistkerfa, sjálfbærri landnýtingu og þátttöku almennings í vöktun vistkerfa. Þá hefur hann jafnframt birt fjölda greina í fjölmiðlum um málefni veiða, vernd vistkerfa og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda.

„Ég hlakka til að taka við stöðu framkvæmdastjóra Landssambands veiðifélaga á þessum umbrotatímum. Ég tek við góðu búi frá fráfarandi framkvæmdastjóra og núverandi stjórn. Framundan eru mörg stór og erfið mál, en ég trúi því að í sameiningu getum við fundið farsælar lausnir fyrir veiðifélög landsins. Veiði er rótgróin í íslenskri menningu og náttúruvitund Íslendinga – og LV hefur mikilvægu hlutverki að gegna í því að sameina ólíka aðila, verja hagsmuni félagsmanna og stuðla að ábyrgri nýtingu og vernd villtra fiskistofna.“

Stjórn LV þakkar Gunnari Erni Petersen fyrir vel unnin störf og býður Jóhann Helga Stefánsson hjartanlega velkominn til starfa,“ segir í tilkynningunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×