Fótbolti

Bar­átta Blika um sæti í Sam­bands­deild í beinni á Sýn Sport

Sindri Sverrisson skrifar
Blikar féllu naumlega úr leik í undankeppni Evrópudeildarinnar en eiga enn möguleika á að komast í Sambandsdeildina.
Blikar féllu naumlega úr leik í undankeppni Evrópudeildarinnar en eiga enn möguleika á að komast í Sambandsdeildina. vísir/Ernir

Hundruð milljóna og sæti í sjálfri Sambandsdeild Evrópu verða í húfi í einvígi Breiðabliks og Virtus frá San Marínó. Nú er ljóst að báðir leikirnir verða sýndir á Sýn Sport.

Liðin byrja á að mætast á Kópavogsvelli annað kvöld klukkan 18 en seinni leikurinn verður svo í Serravalle í San Marínó viku síðar.

Íslandsmeistararnir hafa átt erfitt uppdráttar að undanförnu en hljóta að teljast eiga góða möguleika á að slá út Virtus og verða eitt af þeim 36 liðum sem spila í aðalkeppni Sambandsdeildarinnar, eins og Víkingar gerðu fyrstir íslenskra liða á síðustu leiktíð.

San Marínó er aðeins um 34.000 manna smáríki sem er algjörlega umlukið af Ítalíu, og er Virtus fyrsta liðið þaðan til að komast í umspil um sæti í Evrópukeppni. Það gerðu Virtus-menn með því að slá út Milsami frá Moldóvu, með 3-0 heimasigri eftir 3-2 tap á útivelli.

Sem ríkjandi landsmeistarar eru Breiðablik og Virtust í meistarahluta umspilsins en í hinum hlutanum má finna mörg firnasterk lið á borð við Crystal Palace, Fiorentina, Rayo Vallecano, Mainz, Strasbourg, AEK Aþenu og fleiri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×