Innlent

„Það gengur ekki að við séum með starf­semi sem snið­gengur lögin hér á Ís­landi“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. Vísir/Arnar

Formaður neytendasamtakanna segir stórskrýtið hvernig stjórnvöld hafa tekið á málum er varða bílastæðagjöld. Leiða megi líkur að því að fyrirtæki sem rukki fyrir þriðja aðila séu ekki með leyfi til þess og segir ekki ganga að hér á landi sé stunduð starfsemi sem sniðgangi lög. 

Umræða um bílastæðagjöld hefur verið áberandi að undanförnu og ekki síst um vangreiðslugjöld sem lögð eru á ökumenn sem ekki greiða bílastæðagjöld í tíma. Samkvæmt reglugerð er hámark innheimtuviðvörunar 950 krónur og fyrir kröfur undir 3000 krónum má ekki rukka meira en 1300 krónur í vangreiðslugjald. 

Breki Karlsson formaður neytendasamtakanna segir samtökin telja þessa álagningu vera kolólöglega.

„Við höfum bent Atvinnuvegaráðuneytinu á það sem fer með eftirlit með innheimtulögum, við höfum bent fjármálaeftiliti seðlabanka á það sem fer með eftirlit með fyrirtækjum í innheimtustarfsemi. Þá höfum við einnig bent á að danski umboðsmaður neytenda hafi úrskurðað um að þessi gjöld séu innheimta og eigi þar með að fara að innheimtulögum,“ sagði Breki í samtali við fréttastofu Sýnar.

Ekki alltaf neytandanum að kenna ef greiðsla berst ekki

Breki nefnir einnig að gefa eigi fólki frest til að klára sín mál fái það sekt hafi það misfarist að greiða. Ekki sé alltaf neytandanum um að kenna berist greiðsla ekki.

„Við höfum dæmi um það að greiðslustaðir hafi verið bilaðir, öppin biluð eða sýnt ranga stöðu bíls. Þau sem leita til okkar eru öll af vilja gerð að greiða þetta þjónustugjald en einhverra hluta vegna hefur það ekki alltaf tekist.“

Dæmi eru um fólk hafi verið rukkað um allt að 7500 krónur í vangreiðslugjöld sem er tæplega 600% meira en leyfilegt.

„Stórskrýtið hvernig stjórnvöld hafa tekið á þessum málum“

Samkvæmt innheimtulögum og fyrirtæki sem innheimta bílastæðagjöld fyrir þriðja aðila þurfa að vera með innheimtuleyfi sem fjármálaeftirlitið úthlutar. Breki segir að leiða megi líkur að því að ekkert fyrirtækjanna sem rukki himinhá vangreiðslugjöld sé með slíkt leyfi. Neytendasamtökin óskuðu í vor eftir upplýsingum um slík leyfi sem hafa verið veitt og bíða enn eftir svörum frá atvinnuvegaráðuneyti.

„Það gengur ekki að við séum með starfsemi sem sniðgengur lögin hér á Íslandi, það bara gengur ekki.“

Atvinnuvegaráðuneytið á samkvæmt lögum að hafa eftirlit með innheimtulögum og Breki segir að ráðuneytið hljóti að bregðast við.

„Það er alveg stórskrýtið hvernig stjórnvöld hafa tekið á þessum málum. Við höfum bent á þetta lengi, FÍB hefur bent á þetta lengi og ekkert hefur gerst í meira en ár.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×