Upp­gjörið: FHL – Fram 3-2 | Fyrsti sigur FHL í hús

Arnar Skúli Atlason skrifar
Frá leik FHL fyrr á tímabilinu
Frá leik FHL fyrr á tímabilinu vísir/Guðmundur

Nýliðar FHL og Fram mættust í 13.umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta í kvöld en FHL hafði ekki unnið einn einasta af fyrstu tólf leikjum sínum í sumar. Á því varð loks breyting í kvöld.

FHL byrjaði betur í leiknum og tóku öll völd á vellinum. Björg Gunnlaugsdóttir var að reynast Fram erfið og var hún að skapa fyrir samherja sína. Það dró til tíðinda strax á 15. mínútu þegar Björg fékk boltann upp hægri vænginn og keyrði inn á teiginn hjá Fram og lagði boltann fyrir markið þar sem Calliste Brookshire kom á ferðinni og negldi boltanum í netið.

FHL hélt áfram að pressa á Fram í fyrri hálfleiknum en náði ekki að bæta við marki og því leiddu þær 1-0 í hálfleik.

FHL byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og fengu þær dauðafæri strax í upphafi seinni hálfleiksins þar sem Taylor Hamlett stýrði fyrirgjöf Calliste Brookshire yfir markið.

Alda Ólafsdóttir kom inná hjá Fram um miðjan seinni hálfleikinn og breytti það leik Framara og þær tóku öll völd á vellinum eftir það.

Gegn gangi leiksins skoraði FHL samt annað mark hans á 86. mínútu þegar Calliste Brookshire komst inn á teiginn og missti boltann frá sér en Alexia Marin Czerwien kom á krafti inn í tæklingu og þrumaði boltanum í netið og staðan 2-0 fyrir FHL.

Á fyrstu mínútu uppbótartíma komst Fram inn í leikinn aftur. Aukaspyrnu Fram var lyft inná teig FHL og eftir barning í teignum var Alda Ólafsdóttir réttur maður á réttum stað og skoraði.

Fram náði að pressa FHL niður en aftur skoraði FHL. Á 96. mínútu vann Taylor Hamlett boltann á miðjunni og keyrði upp miðjan völlinn og átti skot sem markmaður Fram varði út í teig. Taylor tók frákastið sjálf og skoraði.

Fram minnkaði muninn strax í næstu sókn þegar Alda Ólafsdóttir átti skot fyrir utan teig sem fór í varnarmann og breytti um stefnu og endaði í markið FHL.

Nær komust Fram ekki og því unnu FHL sinn fyrsta leik í Bestu deild kvenna og fyrstu stig sumarsins kominn í hús.

Atvikið

Þriðja markið hjá FHL í kvöld þegar Taylor Hamlett vann boltann á miðjunni og keyrði upp völlinn og kom boltanum í netið þegar Fram voru farnar að leitast að jöfnunarmarkinu.

Stjörnur

Stjörnur leiksins voru í liði FHL. Björg Gunnlaugsdótir, Taylor Hamlett og Alexia Marin Czerwien voru gjörsamlega frábærar í kvöld. Rósey Björgvinsdóttir fyrirliði stjórnaði vörninni eins og herforingi einnig.

Hjá Fram stóð Alda Ólafsdóttir sig best á þessum 30 mínútum sem hún fékk í kvöld.

Skúrkar

Murielle Tiernan og Kamila Pickett vilja helst gleyma þessum leik sem fyrst. Þær voru yfirburðaslökustu leikmenn vallarins.

Dómarar [8]

Ekkert út á þá að sakast. Gott flæði í leiknum í dag.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira