Fótbolti

Hall­dór óttast ekki að fá annan skell

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Halldór Árnason og Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Blika á blaðamannafundi. Þeir munu fá góðan stuðning í kvöld.
Halldór Árnason og Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Blika á blaðamannafundi. Þeir munu fá góðan stuðning í kvöld. vísir/sigurjón

Breiðablik tekur á móti pólska liðinu Lech Poznan í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld og er óhætt að segja að það sé á brattann að sækja hjá Íslandsmeisturunum.

Fyrri leik liðanna í Póllandi lyktaði með 7-1 sigri heimamanna og leikurinn í kvöld því formsatriði.

„Það er auðvitað svekkjandi að vera ekki að spila um meira en raun ber vitni. Við verðum að taka þennan leik alvarlega. Þetta er forkeppni Meistaradeildar gegn stórliði á evrópskan mælikvarða,“ segir Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks.

Klippa: Halldór Árnason um seinni leikinn gegn Lech Poznan

„Við getum notað þennan leik til að læra af. Munum stilla upp góðu liði. Þetta getur reynst mjög dýrmætt inn í framhaldið í Evrópu.“

Þó svo Blikar falli úr leik í Meistaradeildinni þá fara þeir beint inn í Sambandsdeildina þar sem liðið fær nýtt líf. Halldór segir ekki koma til greina að stilla upp einhvers konar varaliði.

„Við spilum á sterku liði. Það verða breytingar eins og venjulega. Allir sem byrja hafa verið í hlutverki hjá okkur í sumar. Söknum Viktors Arnar sem er í leikbanni og svo er Anton Logi lítillega meiddur,“ segir þjálfarinn ákveðinn en hann óttast ekki að fá annan skell.

„Nei, alls ekki. Við getum ekki hugsað þetta þannig. Við erum búnir að vera lengi saman og höfum upplifað ýmislegt. Við höfum alltaf komið til baka er gefur á bátinn.“

Leikurinn er í beinni útsendingu á Sýn Sport og hefst útsending klukkan 18.15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×